Loðnurannsóknir hófust í dag þegar rannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt af stað í árlegan könnunarleiðangur Hafrannsóknastofnunar. Ferðinni er heitið norður og austur fyrir land til að kanna hversu langt loðnan er gengin inn í landhelgina. Skipið verður úti í rúma viku og niðurstöður úr rannsókninni eiga að hjálpa til við ða að leggja drög að heildarmælingu á loðnunni. Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafró, gerir ráð fyrir að það geti orðið á bilinu fimmtánda til tuttugasta janúar og að fimm skip taki þátt í þeim leiðangri. Það eru rannsóknarskipun Árni Friðriksson og Þórunn Þórðardóttir og svo þrjú fiskiskip á vegum útgerðanna, Barði, Heimaey og Polar Ammassak. Útgerðin hefur áður tekið þátt í slíkum leiðöngrum. Meiri veiði en í fyrra en rýr ráðgjöf miðað við fyrri ár Síðasta mæling á veiðistofni loðnu var í haust og hún gaf Hafrannsóknastofnun tilefni til að ráðleggja rúmlega fjörutíu og fjögur þúsund tonna veiði á vertíðinni. Það væri nærri fimmföld loðnuveiði miðað við síðustu vertíð þegar aðeins voru veidd um tíu þúsund tonn og tvær vertíðir þar á undan var engin loðnuveiði. Þetta verður hins vegar afar lítil vertíð í sögulegu samhengi verði ekki bætt við kvótann eftir þá leit sem nú er að hefjast. Og án þess að fullyrða nokkuð á Guðmundur síður von á að svo verði. „Það segir okkur ýmislegt að það er ekki stór árgangur á ferðinni og við eigum ekki von á að það verði stór vertíð. En engu að síður þá er alltaf óvissa í öllum þessum mælingum og það getur alveg hlaupið á einhverjum tugum þúsunda upp eða niður svona ráðgjöf,“ segir Guðmundur. Tugir milljarða í húfi Ef ráðgjöfin helst svipuð má gera ráð fyrir að tekjurnar nemi um fimmtán milljörðum. Hrognin sem veiðast á örfáum vikum á vorin gefa mest í aðra hönd. Íslenskar útgerðir ráða yfir stórum hluta af markaðnum svo ef lítið veiðist hér eru verðin há. Því meira sem veiðist, því meira fer í mjöl og lýsi sem er ódýrari vara. Þá er líka meira framboð af hrognum svo minna fæst fyrir þau. Tekjur af 500 þúsund tonna vertíð, eða um tífalt meiri veiði, gætu því numið 60-70 milljörðum. Vonast eftir stærri árgangi á næsta ári Útgerðin getur gert ráð fyrir lokaráðgjöf um miðjan febrúar. „Við gerum ráð fyrir að eftir þessa heildarmælingu í janúar að þá þurfi að fara til einhverra aukamælinga á okkar skipum og veiðiskipum, eins og verið hefur undanfarin ár,“ bætir Guðmundur við. Næsti árgangur, afrakstur hrygningar ársins 2024, virðist stærri. Mæling á ungloðnu úr þeim árgangi er sú fimmta hæsta frá því mælingar hófust. Hann er álíka stór og 2019 árgangurinn sem gaf mikinn afla á tveimur vertíðum frá 2021 til 2023. Út frá þessum niðurstöðum er ráðgjöf um upphafskvóta fyrir næsta fiskveiðiár, 2026/27 metin, og þar er ástæða til mikillar bjartsýni. Brellin og brögðótt Guðmundur talar um óvissu i mælingum og óvissan er jafnan mikil þegar loðnan er annars vegar. Brellinn fiskur segir útgerðin gjarnan og forsvarsmenn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa gagnrýnt þetta og vilja sjá mun meira fjármagni varið til loðnurannsókna. Það sé ekki forsvaranlegt að einu rannsóknirnar sem stundaðar eru séu fyrst og fremst til þess að geta gefið út ráðlagðan afla hverju sinni. Og þótt það sé kannski full djúpt í árina tekið, viðurkennir Guðmundur að þekking á loðnustofninum sé ekki næg. „Nei, auðvitað eru ýmsir þættir í líffræði stofnsins sem að við þekkjum lítið til og sérstaklega þá á yngri árum. Bæði frá því að eggin klekjast út og lirfurnar fara að reka hérna norður á bóginn með hafstraumunum og við þekkjum of lítið afdrif þeirra og útbreiðslu og hvar þau enda,“ segir Guðmundur. Vitum ekki nóg um yngstu aldursstigin Hafrannsóknastofnum hefur safnað sýnum bæði úr í maíleiðöngrum í kringum landið, af lirfum, og gert líffræðilegar rannsóknir á þeim. Með því að skoða vöxtinn og útbreiðslua og geta sér til um lirfurekið fæst skýrari mynd af því hvar þær enda sem fullvaxta fiskur. „En það er samt sem áður, eins og ég segi, að frá því að þær klekjast út, lirfurnar, og fram til eins árs aldurs, þá er þekkingin okkar allt of lítil,“ segir Guðmundir. „Þannig að þetta er svona svart box sem að við þurfum virkilega að skoða betur. En þetta á svo sem ekki bara við loðnu, þetta á við flesta nytjastofna okkar. Hvað stjórnar nýliðun í þessum stofnum, það er bara illa þekkt.“ Ekki nógu mikið vitað um afránið Mikið er í húfi þegar loðnuveiðar og -vinnsla eru annars vegar, enda er talið að fjárfesting í uppsjávariðnaði á Íslandi nemi um 5-600 milljörðum króna. Þá er mikilvægt að þekking á lykilstofnum eins og loðnu sé góð. Eitt af því sem margir telja að herji á loðnustofninn er mikil hvalagengd og að hvalir sporðrenni loðnu í stórum stíl. „Samspil hvala og loðnu hefur svo sem ekki verið kannað mikið,“ segir Guðmundur. „Við vorum bara nýlega að birta grein, vísindamenn hérna við stofnunina, sem voru að skoða dreifingu á loðnu og hvölum, hvernig það samræmi var þarna á milli að hausti við Grænland. Þar kemur fram að hvalurinn ver tíma þar sem loðna er. „Og svo vitum við það að hnúfubakurinn sérstaklega er að fylgja loðnunni eftir hérna á hrygningargöngunni hennar um veturinn og er hérna í kringum hana. Og vissulega hefur þetta áhrif á stofninn, hnúfubakurinn er að éta úr honum.“ Hann segir þó óvissu um þetta. „Við erum að bíða eftir upplýsingum um nýjustu talningar hvalastofnana hérna í Norðaustur-Atlantshafi og hver þróunin hefur verið síðustu átta ár. Þá verður meira hægt að segja um hvar má ætla að þróunin í þessum stofnum er og þá áhrif á loðnu meðal annars, afrán þeirra á henni.“ Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunar, hélt til loðnuleitar í dag. Ýmislegt bendir til þess að vertíðin verði rýr en hagur útgerðanna gæti vænkast á næsta ári. Breytingar þegar sjórinn fór að hlýna Miklar breytingar urðu á loðnustofninum upp úr 2000 þegar fór að hlýna við Íslandsmið, segir Guðmundur. „Þá breytir loðnan um útbreiðslu, fer að færa sig meira til Grænlands og hefur raunar haldið sig við Grænland síðan þá.“ Síðan þá hafa ekki komið jafn stórir árgangar. Þrátt fyrir öflugar rannsóknir fyrir veiðiráðgjöfina segir Guðmundur of lítið vitað um fyrstu aldursstig loðnunnar. „Þetta eru bara hlutir sem við þekkjum ekki nógu vel og gögnin sem við þurfum til að geta svarað þessu almennilega þau liggja ekki fyrir.“