Maduro lýsir sig saklausan af öllum ákæruliðum

Nicolás Maduro og Cilia Flores lýstu sig saklausa af öllum ákæruliðum eftir að þau voru leidd fyrir dómara í New York í dag. Þau voru handsömuð í Caracas um helgina. Þegar dómari í málinu bað Maduro að gera grein fyrir sér stóð sá síðarnefndi upp úr sæti sínu og sagði á spænsku að hann væri Nicolás Maduro, forseti Venesúela. Honum hefði verið rænt á heimili sínu í Caracas, höfuðborg Venesúela. Mál Maduros var hratt og dómarinn, hinn 92 ára gamli Alvin Hellerstein, greip fram í fyrir honum og sagði að lengri svör þyrftu að bíða betri tíma. Hann vildi aðeins að Maduro gerði grein fyrir sér. Maduro lýsti sig saklausan af öllum ákæruliðum. Það sama gerði Cilia Flores. Réttarhöldum verður framhaldið 17. mars. Þegar sakborningarnir voru leiddir úr réttarsal sagði Maduro á spænsku: „Ég er stríðsfangi.“ Maduro hefur ráðið lögfræðinginn Barry Joel Pollack til að sjá um vörnina. Hann er einkum þekktur fyrir að hafa starfað fyrir Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Pollack sagði Maduro ekki krefjast lausnar gegn tryggingu en að það gæti gerst síðar.