Ósprungna flugelda og ýmiss konar flugeldrarusl þarf að flokka gaumgæfilega. Endurvinnslustöðvar Sorpu taka á móti flugeldarusli og mörg sveitarfélög hafa komið fyrir sérstökum gámum undir flugeldarusl. Flugeldarusl flokkast sem blandaður úrgangur og fer í urðun. Gunnar Dofri Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu og samskiptasviðs hjá Sorpu segir ekki hægt að endurvinna skottertur. „Terturnar eru þannig samsettar að það er í raun ekkert við þær að gera heldur en að brenna til þess að framleiða orku. Það stafar svona aðallega af því að þetta er pappír en svo er þetta líka fullt af leir og öðrum viðbjóði sem er bara hluti af þessum tertum. Þannig þær eiga sér engan endurvinnslufarveg, því miður.“ Ósprungnir flugeldar eiga að fara í spilliefnagáma Ósprungnir flugeldar eiga að fara í spilliefnagáminn. Umbúðir utan af flugeldum, til dæmis plastumbúðir og kassar sem innihalda ekkert púður, má setja í flokkunartunnur við heimili eða fara með á söfnunarstöð. Gunnar Dofri segir mikið álag á endurvinnslustöðvum í upphafi árs. „Fyrir fólk sem er ekki algjörlega í spreng með ruslið sitt þá væri ekkert úr vegi að bíða með það kannski í viku eða tvær að koma til okkar með það sem hefur safnast upp. Bara til þess að það sé auðveldara fyrir alla, bæði fyrir okkur að taka við þessu og fyrir fólk að fara í gegnum stöðina hjá okkur.“