Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við aðgerðum Bandaríkjastjórnar í Venesúela hafa að mörgu leyti verið varfærin. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, var til að mynda gagnrýnd fyrir að kveða ekki sterkar að orði, ekki síst í ljósi þess að smáríki eins og Ísland á allt sitt undir að alþjóðalög séu virt. Flókin jafnvægislist þjóðarleiðtoga Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, telur að það hefði verið flókið fyrir ráðherrann að vera harðorðari. Þorgerður hafi lagt á það áherslu að flest ríki eigi mikið eða nánast allt undir að alþjóðalög haldi og að þetta kerfi hafi raunverulega þýðingu og sé fylgt í öllum meginatriðum. „Síðan er auðvitað alltaf hægt að hugsa hvaða orð á að nota, hversu fljótt þú átt að tjá þig og eftir hverjum þú átt að bíða. En maður sá það að leiðtogar Evrópu voru mjög varkárir.“ Þess varkárni í viðbrögðum þjóðarleiðtoga vakti nokkra athygli. Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur, nefndi það í fréttum um helgina að ráðamenn töluðu eflaust öðruvísi og á allt annan hátt í samtölum sínum á milli en opinberlega. „Sko, við erum náttúrulega að lifa ótrúlega tíma þar sem heimsmyndin eins og við höfum þekkt hana eina mannsævi er að taka gríðarlegum breytingum,“ segir Þórdís. Þetta sé jafnvægislist sem sé flókin og það sé mikilvægt að þjóðarleiðtogar séu ábyrgir, yfirvegaðir, vandi orð sín og valdi stöðunni hverju sinni. Þeir geti þó ekki gert þá kröfu að kjósendur treysti þeim ef þeir sjálfir treysta kjósendum ekki fyrir sannleikanum. „Og ef þú ætlar að vera algjörlega opinn með hvernig þú metur stöðuna þá þarftu líka að vera með hið svokallaða plan og viðbrögð. Þótt Evrópa sé að gera talsvert þá var þetta kerfi byggt upp þannig að við erum saman í þessu og hið leiðandi afl í þessu öllu eru Bandaríkin.“ Frelsi fólksins virðist aukaatriði Í tilviki Venesúela sé staðan mjög flókin. Það hafi verið ríki þar sem almennir borgarar bjuggu við ömurlegan kost, nutu ekki raunverulegs frelsis heldur verið stýrt af einræðisherra auk þess sem utanaðkomandi ríki hafi farið með yfirráðin yfir náttúruauðlindunum. „Meginþorri þjóðarinnar í Venesúela gleðst eflaust yfir því að Maduro sé farinn og vonar að eitthvað betri bíði hennar en það breytir því ekki að alþjóðlögum ber að fylgja alltaf.“ Þórdís rifjar líka upp að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Bandaríkin fari í einhverjar aðgerðir þar sem tilgangurinn eigi að helga meðalið; að þau séu þarna komin til að frelsa. „En mér hefur ekkert þótt fara mikið fyrir því hjá Bandaríkjaforseta að núna sé þetta allt í höndum fólksins, það virðast vera aðrir hlutir sem taka þarna pláss.“ Það voru einmitt margir sem stöldruðu við ummæli Trumps um að Bandaríkin ætluðu að stjórna Venesúela þar til þarlend stjórnvöld yrðu honum þóknanleg. „Bandaríkin og afskipti þeirra hafa í gegnum söguna reglulega verið gagnrýnd; að ætla að byggja upp frjálslynt lýðræði í einhverjum löndum sem hefur svo gengið upp og ofan. Þarna virðist meginmarkmiðið ekki vera það heldur virðist þett miklu frekar vera viðskiptadíll sem snýst um olíu og að almenningur fái einhverja endurgreiðslu.“ Segir hluti sem hún hefði aldrei sagt sem ráðherra Tilhneigingin hjá mörgum þjóðarleiðtogum virðist síðuðustu sólarhringana fyrst og fremst vera að styggja ekki Bandaríkjaforseta. Aftur nefnir Þórdís þetta jafnvægi; sjálfsblekking og meðvirkni geti hins vegar verið hættuleg þótt hún geti auðveldlega sett sig í spor þjóðarleiðtogana. „Ég finn það alveg sjálf að ég hef sagt hluti og get sagt hluti sem ég hefði líklega ekki sagt eins skýrt ef ég væri í embætti utanríkisráðherra.“ Leiðtogar verði hins vegar að vera heiðarlegir með stöðuna eins og hún sé. „Og þetta hugarástand Bandaríkjaforseta og fólksins í kringum hann er augjóslega eitthvað til að hafa áhyggjur af og það sem er erfitt að melta og meðtaka er að við erum að tala um Bandaríkin.“ Því hvað sem fólki finnist um þeirra sögu þá séu þau óumdeildur leiðtogi hins frjálsa heims, bakbeinið í kerfi: hlutverk sem þau hafi sjálf viljað taka að sér. Framan hafi Evrópuþjóðir meira að segja verið beðnar um að byggja ekki upp stóra sterka heri. „Það hefur síðan breyst, ekki bara eftir að Trump komst til valda í annað sinn heldur hefur þetta verið þróun síðustu fimmtán ár. Og við erum einhvern veginn að reyna að fóta okkur í þessum nýja veruleika. “ Sá veruleiki sé þegar orðinn og fleiri hlutir eigi eftir að gerast. „Veröldin eins og við þekktum hana er ekki sú sama og það er ekki að fara breytast næstu mánuði og misseri.“ Frumskylda stjórnvalda sé að tryggja öryggi borgara og það geri Ísland ekki eitt og sér því hér er enginn her og þess vegna séum við í Nató. „Fælingarmáttur okkur felst í því að það eru herir í öðrum löndum sem hafa lofað að færa fórnir ef eitthvað gerist. Nató er hornsteinninn í okkar þjóðaröryggisstefnu þar sem Bandaríkin eru stærst og sterkust. „Veröld sem var“ er bara orðið svolítið viðeigandi að segja.“ Ber að taka orðum Trumps um Grænland alvarlega Trump Bandaríkjaforseti hefur síðasta sólarhringinn enn og aftur látið í ljós áhuga sinn á Grænlandi og reitt þannig bæði Dani og Grænlendinga til reiði sem hafa beðið hann um að láta af þessu tali. Í framhaldinu hafa vaknað áhyggjur af því að Ísland yrði notað sem einhvers konar peð í valdatafli. Þórdís telur að Bandaríkin þurfi varla á Íslandi að halda til að taka yfir Grænland, styrkur og varnarinnviðir Bandaríkjanna þar séu þannig að þeir gætu tekið yfir Grænland án þess að þurfa nýta einhverja aðstöðu hér. En þurfa stjórnvöld ekki að vera undir það búin að Trump láti verða af stóru orðunum og taki Grænland yfir? „ Það er margbúið að segja að það eigi taka orðum Trumps alvarlega; utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði það til að mynda mjög skýrt nýverið að það sem Trump segist ætla að gera, gerir hann.“ Þórdís rifjar upp í þessu samhengi spurningu sem hún fékk frá syni sínum um jólin sem vildi vita hvar Ísland stæði ef heiminum yrði skipt upp í þrennt. „Og þetta var bara mjög góð spurning; ég hugsaði fyrst Evrópa og við en hvar erum „við“ þá? Við þurfum að búa okkur undir mjög hraða atburðarás, hugsa stragetískt og hugsa hver við erum sem þjóð en minna okkur líka á að það eru fá ríki sem hafa notið jafn mikils góðs af því kerfi sem hefur verið byggt upp. Við erum frjáls, fullvalda og sjálfstæð vegna þess kerfis þótt gallað sé. Frjálslynt lýðræði á undir högg að sækja úr óvæntum áttum og þá þurfum við að hafa kjark og vit til að taka réttar ákvarðanir. Og ég er sannfærð um að það muni reyna verulega á það á næstu misserum.“