Þrettándinn er ein magnaðasta nótt ársins samkvæmt þjóðtrú og var frídagur fram á átjándu öld. Þjóðfræðingur segir að hátíðahöld hafi færst meira inn á heimilin á síðustu árum. Jólin eru kvödd með þrettándabrennum, blysförum og álfareiðum um landið. Ein brenna verður í Reykjavík - við Gufunesbæ, en auk þess verða viðburðir á Thorsplani í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ. Þá verða meðal annars brennur í Reykjanesbæ, Akranesi, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Auður Halldórsdóttir sem stýrir þrettándagleði í Mosfellsbæ segir sterka hefð fyrir hátíðahöldnunum þar í bæ. „Ég veit ekki alveg af hverju er haldið svona vel og rækilega upp á þetta hér, en þannig er hefðin,“ segir Auður. Frídagur fram á 18. öld Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur segir að hátíðahöld hafi færst meira inn á heimilin síðustu ár en dagurinn hafi verið sterkari í sessi sem hátíðisdagur áður fyrr. „Þrettándinn var frídagur, þangað til 1770, þegar hann var lagður af sem slíkur ásamt mörgum öðrum íslenskum, þá, frídögum. Þannig það er kannski frekar fúlt að hann sé það ekki lengur,“ segir Dagrún. „Þrettándinn er náttúrulega þessi hátíð þar sem við erum að ljúka jólunum og það eru viss tímamót og tímamótum fylgja oft einhver svona hátíðahöld, stundum líka eldur og brennur og svoleiðis sem við könnumst við frá þrettándahátíðinni í gegnum tíðina.“ Þrettándinn er ein magnaðasta nótt ársins ásamt jólanóttinni og Jónsmessunóttinni. Dagrún segir sterka þjóðtrú tengda þrettándanum. „Huldufólk á að flytjast búferlum á þrettándanum eins og í kringum áramótin. Þá er eins gott að verða ekki á vegi þeirra og gæta sín ef þau reyna að bjóða manni eitthvað og ef álfar og huldufólk buðu mönnum í dans áttu menn að vara sig á því líka. Svo geta kýr talað mannamál og selirnir kastað hamnum og dansað í fjörunni, hinir látnu rísa úr kirkjugörðum og svona. Þannig að þetta er hátíð hins yfirnáttúrulega.“ Hátíðahöld færst inn á heimilin Dagrún segir það hafi breyst á undanförnum árum hvernig haldið er upp á þrettándann. „Víða um land eru náttúrlega stórar hátíðir, eins og til dæmis í Vestmannaeyjum og í Bolungavík er þrettándanum fagnað mikið. Kannski er þetta orðið meira persónulegt hvernig við höldum upp á hann. Við gerum það kannski svolítið heima, tökum niður jólaskrautið. Þetta er svona hátíð sem stendur fyrir einmitt lok jólanna, tökum niður jólaskrautið, brjótum piparkökuhúsin. En borðum kannski aðeins fínni mat. En hefur kannski breyst að því leytinu að við erum komin svona meira inn og kannski ekki alls staðar jafn mikið af brennum og áður var.“