Þema komandi kosninga verði endurnýjun á fólki

Framboðslistar fyrir sveitarstjórnakosningarnar í vor taka á sig mynd og spennan magnast í aðdraganda kosninga. Þau Aðalsteinn Kjartansson, aðstoðarritstjóri Heimildarinnar, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, frumkvöðull og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ræddu komandi sveitarstjórnarkosningar í Kastljósi kvöldsins. Framboðslistar fyrir sveitarstjórnakosningarnar í vor taka á sig mynd og spennan magnast í aðdraganda kosninga. Fyrrverandi borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins telur að þema kosninganna verði endurnýjun á fólki. Endurnýting kosningaloforða Aðalsteinn telur líklegt að kosningaloforð komandi kosninga muni svipa til fyrri kosningaloforða, í grunninn snúi sveitarstjórnamál að miklu leyti um daglegt líf. „Skólamál, leikskólamál, hvernig við komumst til og frá vinnu og hvernig okkur bara líður í okkar daglega lífi. Þær breytingar sem verða á fjórum árum eru náttúrulega einhverjar en til dæmis það að byggja upp nýtt hverfi tekur bara lengri tíma.“ Þorbjörg kveðst sammála Aðalsteini og telur að komandi kosningar muni líkt og fyrri kosningar snúa að breytingum, breytingum sem ekki var staðið við í fyrri kosningum. Þó telur hún að vissir málaflokkar vegi þyngra nú heldur en áður, þá hafi skólamál sérstaklega verið í brennidepli ásamt skipulagsmálum. Hún telur þó að megináherslan verði á grunnþjónustuna. „Almennt eru þetta samt 90% að fara í þessa grunnþjónustu sem að fólk vill að sé gerð betur, þetta er nærþjónusta þannig að það hafa allir sögu að segja frá skólanum og sérkennslunni, það eru allir orðnir svolítið óþolinmóðir yfir því að þetta bákn sé orðið svona stórt án þess að geta sinnt þessum grunnmálum.“ Enginn sem vinnur á slagorðum um ábyrgan rekstur Þó að rekstur sveitarfélaga geti reynst flókinn telur Aðalsteinn ekki líklegt að kosningaslagorð vorsins muni snúa að þeim. „Það hefur enginn unnið kosningar til sveitastjórnar með slagorðinu ábyrgur rekstur. Fjármál sveitarfélaga eru flókin en þau eru í svona þokkalega föstum skorðum.“ Framboðslistar flokka munu skýrast á næstu misserum. Þorbjörg telur að þema kosninganna í borginni verði endurnýjun á fólki, það sé eðlilegt að almenning langi eftir breytingum eftir óbreytta stjórnunarhætti til margra ára. Hún segir að mörg ný andlit hafi nú þegar komið fram og spennandi verði að sjá útspil flokkanna. „Dagur B. Eggertsson er búinn að vera þarna mjög lengi eða frá 2002 eða fyrir þann tíma og stýrir borginni meira og minna þannig að ég sé alveg af hverju það er komin svona smá þreyta og samfylkingarmenn sjálfir vilja sjá þetta eignast aftur eitthvað nýtt líf.“ Segir Þorbjörg. Meðbyr Miðflokksins Bæði segja þau áhugavert að sjá hvernig vinstriflokkar hafi brotnað algjörlega saman miðað við styrk þeirra áður, merkilegt verði að fylgjast með myndun nýs vinstrivængs í borginni undir forystu Sönnu og Vors til vinstri. Miðflokkurinn hefur enn ekki gefið út sína framboðslista en Aðalsteinn segir að velgengni þeirra muni alfarið ráðast af því fólki sem valið er í forystusætin, erfitt sé að spá fyrir um fylgi nýrri flokka. Þorgerður segir það taka tíma að byggja upp traust flokka. Miðflokkurinn sé til að mynda með gott fylgi en minna bakland en rótgrónari flokkar.