Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir engan þurfa að óttast að herinn geri árás á Grænland. Hann segir hótunum forsetans Donalds Trump um hernaðaríhlutun ætlað að þrýsta á dönsk stjórnvöld að selja Bandaríkjunum landið. The Wall Street Journal segir Rubio hafa tjáð þingmönnum þetta á lokuðum fundi um stöðu mála í Venesúela á mánudag eftir fyrirspurn Chucks Schumer, leiðtoga Demókrata í öldungadeildinni. Fundinn sátu einnig varnarmálaráðherrann Pete Hegseth og Dan Caine, yfirmaður herforingjaráðsins. Ekki liggur fyrir hvort ætlan Rubios var að sefa áhyggjur þingmannanna en Trump-stjórnin hefur lengi lýst yfir ákveðnum vilja til að yfirtaka Grænland. Þarlend stjórnvöld og danska ríkisstjórnin ítreka að landið sé ekki til sölu. Öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham og bandamaður Trumps segir ríkisstjórnina ætla sér að semja við Grænlendinga og Dani. Yfirtaka þurfi Grænland með lögmætum hætti og bjóða öryggistryggingar þannig að Bandaríkin geti hafið þar þróunarstarf og komið sínu fólki fyrir. Utanríkisráðuneytið hefur ekki staðfest frásögn Wall Street Journal enn þá.