Hætta útgáfu ViðskiptaMoggans

Stjórnendur Morgunblaðsins hafa ráðist í breytingar á skipulagi ritstjórnar. Greint er frá þeim í blaðinu í dag. Helsta breytingin er sú að þær deildir ritstjórnar sem hafa sinnt almennum fréttaflutningi í blaðinu og á vefnum og viðskiptadeild hafa verið sameinaðar í eina fréttadeild. Aðalfréttastjóri hennar verður Matthías Jóhannessen sem áður stýrði viðskiptadeild. Á sama tíma hættir Morgunblaðið vikulegri útgáfu ViðskiptaMoggans. Þess í stað verður viðskiptasíðum í blaðinu fjölgað og viðskiptaumfjöllun á vefnum aukin. Í frétt blaðsins segir að ástæðan sé sú að breytt umhverfi upplýsinga og fjölmiðlunar kalli á aukið samspil miðla, aukinn hraða og aukna skilvirkni í fréttavinnslu. Milli jóla og nýárs var að minnsta kosti átta starfsmönnum sagt upp hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Starfsmennirnir voru á ýmsum deildum, þeirra á meðal þjóðþekktir blaðamenn með mikla reynslu. Það var annan mánuðinn í röð sem blaðamönnum var sagt upp á blaðinu. Á fundi milli jóla og nýárs var starfsmönnum greint frá erfiðleikum í rekstri fjölmiðilsins.