Björg Magnúsdóttir, handritshöfundur og fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í leiðtogavali Viðreisnar. Flokkurinn verður með nýjan oddvita í borgarstjórnarkosningum í vor þar sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir gefur ekki kost á sér áfram. Björg segir í framboðstilkynningu sinni að Reykvíkingar vilji breytingar; kerfið sé dýrt, flækjustigið mikið og lögbundin grunnþjónusta ekki sæmandi höfuðborginni. Þá séu fjármál borgarinnar ósjálfbær og traust til borgarstjórnar afar lítið samkvæmt könnunum. „Þetta er sorgleg staða sem ég brenn fyrir að breyta en ég fékk innsýn í kerfið þegar ég starfaði í Ráðhúsinu þar til síðasta vor sem aðstoðarmaður borgarstjóra.“ Björg var aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar, oddvita Framsóknarflokksins, þegar hann var borgarstjóri í meirihluta með Samfylkingunni, Viðreisn og Pírötum. Hún hefur unnið í fjölmiðlum, skrifað bækur og handrit að sjónvarpsþáttum og er athafnastjóri hjá Siðmennt.