Hafís á Grænlandssundi hefur verið skammt undan landi við Vestfirði undanfarna daga. Á ratsjármyndum frá því í gær sást lítill gisinn hafísflekkur rúmar 12 sjómílur norður af Kögri og ísspangir um 17 sjómílur norður af Horni. Ísinn var enn nær landi í síðustu viku. Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir aðstæður breytast hratt í stífri norðaustanátt, á nýjum ratsjármyndum í morgun hefur ísinn færst fjær landi. „Megin hafísröndin, hún er svona 50 sjómílur norð-vestur af Straumnesvita. En síðan er svæði af mjög gisnum ís svona 30-40 sjómílur norður af Hornbjargi og sá ís hann mun fara í vestur í dag og síðan verður norð-vestan 13-18 á Vestfjarðarmiðum eftir hádegi á morgun og það mætti þá gera ráð fyrir að þessi ís gæti borist inn á Vestfjarðamið á morgun,“ segir Björn Sævar. Hann segir líklegt að ís fari mjög nærri landi við Straumnes en að meginhluti breiðunnar fari mun vestar. Ingibjörg Jónsdóttir er landfræðingur og hafíssérfræðingur við Háskóla Íslands. Hún les úr ratsjármyndum og birtir kort af stöðu hafíss undan ströndum Íslands sem Veðurstofan nýtir meðal annars. Ingibjörg telur ólíklegt að hafís færist nær landinu á næstu dögum.