Forsætisnefnd Alþingis hefur samþykkt nýjar verklagsreglur um meðferð við tilkynningum um einelti og áreitni af hálfu ríkisendurskoðanda. Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi var sakaður um einelti og áreitni á vinnustaðnum á liðnu ári. Guðmundur tók sjálfur yfir mannauðsmál stofnunarinnar eftir að mannauðsstjóri og tveir aðrir sviðsstjórar fóru í veikindaleyfi. Ábendingar starfsfólks endurtekið til umfjöllunar Í ákvörðun forsætisnefndar um breytt verklag segir að starfsaðstæður hjá Ríkisendurskoðun og ábendingar starfsfólks stofnunarinnar hafi endurtekið verið til umfjöllunar á fundum nefndarinnar. Verklagi var breytt um miðjan desember og er því hægt að beina tilkynningum um háttsemi ríkisendurskoðanda til skrifstofustjóra Alþingis, fyrir hönd forsætisnefndarinnar. Þetta er gert til að tryggja fylgni við vinnuverndarlöggjöf og viðhalda trúverðugleika stofnana Alþingis. Í ákvörðun forsætisnefndar er vísað í óskráða meginreglu sem segir að starfsmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef það varðar hann sjálfan þannig að ætla megi að það geti haft áhrif á afstöðu hans til úrlausnarefnisins. Með vísan til hennar sé ljóst að ríkisendurskoðandi komi ekki að móttöku, rannsókn eða úrvinnslu tilkynninga sem kunni að berast um einelti og áreitni af hans hálfu. Hver sitja í forsætisnefnd? Þórunn Sveinbjarnardóttir – forseti Alþingis Bryndís Haraldsdóttir – 1. varaforseti Ingvar Þóroddsson – 2. varaforseti Bergþór Ólason – 3. varaforseti Eydís Ásbjörnsdóttir – 4. varaforseti Hildur Sverrisdóttir – 5. varaforseti Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir – 6. varaforseti Einnig verði tekið við tilkynningum frá fólki sem hefur látið af störfum hjá ríkisendurskoðun. Sérstaklega er fjallað um það í greinargerð í tilefni af fyrirspurnum, að því er fram kemur í ákvörðuninni. Ekki er ljóst hve margar ábendingar eða fyrirspurnir hafa borist til nefndarinnar eða hvers eðlis þær eru. Þá liggur ekki fyrir hvort formlegar tilkynningar hafi borist síðan verklaginu var breytt í desember. „Ég stýri þessu embætti“ Guðmundur Björgvin sagði í október að engar tilkynningar hefðu borist um svokölluð EKKO-mál, sem varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti eða ofbeldi. Honum þætti eðlilegt að hann færi sjálfur með mannauðsmál stofnunarinnar meðan mannauðsstjóri væri í leyfi. „Ég stýri þessu embætti og ber ábyrgð á öllum rekstri þess, þar á meðal öllum starfsmannamálum,“ sagði Guðmundur í viðtali við RÚV.