Selá rýmd fyrir Ratcliffe: „Landeigandi er auðvitað í betri stöðu“

Enski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe ætlar sér að veiða lengi í laxveiðiánni Selá í Vopnafirði í sumar og þurftu aðrir veiðimenn að víkja fyrir honum. Ratcliffe er leigutaki Selár í gegnum fyrirtækið Six Rivers og á sömuleiðis jarðir við ánna. Aðrir veiðimenn sem lengi hafa veitt í Selá á þessum tíma geta því ekki veitt í ánni í sumar á þeim tíma sem þeir hafa gert. Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers, segir að Ratcliffe hafi byggt sér hús í Vopnafirði í fyrra og að hann ætli sér að vera meira hér á landi í sumar en áður. Hann segir að það sé ekki óeðlilegt að Ratcliffe geti stýrt því hversu mikið hann veiðir sjálfur í Selá. Gísli segist ekki hafa orðið var við óánægju hjá veiðimönnum vegna þessa. „Eigandi að einhverju hefur náttúrulega ákveðinn umráðarétt yfir því sem hann á. Hann sem landeigandi og aðili að málinu auðvitað hefur inngrip og ítök í það að kaupa sér veiðileyfi. [...] Landeigandi er auðvitað í betri stöðu en sá sem er ekki landeigandi,“ segir hann. Mikil umsvif í áratug Síðastliðin tæpa áratug hefur Ratcliffe stundað fjárfestingar á Íslandi, aðallega á norðausturhorninu. Talsvert hefur verið fjallað um þessi umsvif hans í fjölmiðlum. Ratcliffe hefur keypt margar jarðir á norðausturlandi, meðal annars Grímstaði á Fjöllum, og rekur fyrirtækið Six Rivers Project utan um laxveiðiár í landshlutanum. Þeirra frægastar eru áðurnefnd Selá en Ratcliffe er einnig leigutaki Hofsár, Hafralónsár, Miðfjarðarár í Bakkafirði og Sunnudalsár. Fjallað er um umsvif Ratcliffes á norðausturhorninu í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag. Þáttinn má hlusta á hér: Enski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe er leigutaki Selár í Vopnafirði og landeigandi að jörðum við hana. Hann ætlar að veiða mikið þar í sumar og þurftu aðrir veiðimenn að víkja. Framkvæmdastjóri fyrirtækis Ratcliffes segir þetta ekki óeðlilegt. Hver er þessi Jim Ratcliffe? Samkvæmt lista tímaritsins Forbes er Jim Ratcliffe í 148 sæti á listanum yfir ríkustu menn í heimi. Forbes segir auð hans nema 17,3 milljörðum dollara eða tæplega 2200 milljörðum króna. Ratcliffe er eigandi efnafyrirtækisins Ineos Group sem meðal annars stundar olíu- og gasvinnslu og framleiðir alls kyns efni sem notuð eru í iðn- og lyfjaframleiðslu. Ratcliffe er auk þess einn af eigendum enska fótboltaliðsins Manchester United. Viðhorf bænda Pétur Valdimar Jónsson er bóndi á jörðinni Teigi við Hofsá. Hann er auk þess gjaldkeri veiðifélags Hofsár. Pétur Valdimar hefur sagt að líkja megi umsvifum Ratcliffes við landnám. Í samtali við Þetta helst segir hann að Ratcliffe sé eins og „lénsherra“ í Vopnafirði og að hann fari stundum um dalin á þyrlu meðan hann er við veiðar. Viðhorf bænda sem eiga land að ám sem Six Rivers er með á leigu á norðausturhorninu er hins vegar alls ekki bara gagnrýnið. Jóhannes Sigfússon á Gunnarsstöðum í Þistilfirði er veiðiréttarhafi í Hafralónsá. Hann segir fyrirtæki Ratcliffes gera vel að mörgu leyti og að samstarf við það gangi vel. „Hann virðist náttúrulega hafa mikinn metnað fyrir það að vernda og viðhalda þessu lífríki og laxinum. Því verður ekki á móti mælt. [...] Þeir virðast leggja sig fram um að halda frið og vinna með heimamönnum.“ Báðir spyrja þeir Pétur og Jóhannes hins vegar spurninga um það hvað verði um þessar eignir Ratcliffes á norðausturhorninu eftir hans dag en hann er orðinn rúmlega sjötugur.