Bandaríkin reyna nú að taka olíuflutningaskipið Marinera sem siglir undir rússneskum fána. Rússar hafa sent herskip sín, þar á meðal einn kafbát, til að fylgja skipinu. Bandaríkin hafa veitt skipinu eftirför í rúmar tvær vikur en það hét áður Bella 1 og var á leið til Venesúela þegar bandarískir hermenn reyndu að stöðva það. Skipið hefur verið á efnahagsþvinganalista Bandaríkjanna frá því í fyrra og sigldi áður undir gvæjönskum fána. Skipið er um það bil 200 kílómetrum frá ströndum Íslands og breytti nýlega um stefnu og virðist nú stefna í suður frá Íslandi. Nokkrar herflugvélar flugu yfir Norður-Atlantshafið í átt að skipinu. Rússneskir fjölmiðlar hafa einnig birt myndefni sem sýnir bandarískt skip í návígi við Marinera.