Þrjú keppast um að leiða lista Viðreisnar

Viðreisn fær nýjan oddvita í borgarstjórnarkosningum í vor. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sem leitt hefur lista flokksins, gefur ekki kost á sér. Róbert Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vogum og síðar Grindavík, var fyrstur til að bjóða sig fram. Hann segist standa fyrir valfrelsi í samgöngum svo borgarbúar geti valið hvernig þeir fara til og frá vinnu og séu ekki fastir í umferð. Hann á von á kröftugri baráttu. „Ég held að hún verði skemmtileg, það er mikil stemning í kringum Viðreisn, það er mikill áhugi. Það er mestur áhugi á að bjóða sig fram í oddvitasætið hjá Viðreisn, svo ég hef trú á því að þetta verði skemmtileg og málefnaleg barátta,“ segir Róbert. Hann segist vel geta séð sig fyrir sér sem næsti borgarstjóri Reykjavíkur. „Já ég er tilbúinn í það, ég hef verið bæjarstjóri í ellefu ár og þekki þennan rekstur og þessa starfsemi mjög vel. Þannig að ég vil taka við og verða borgarstjóri Reykvíkinga í sumar,“ segir hann. Þrjú hafa tilkynnt framboð til oddvita Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Enn gæti bæst í hópinn þar sem framboðsfrestur er til 16. janúar. Leiðtogaval verður 31. janúar. Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, varaþingmaður Viðreisnar og fyrrverandi ríkissáttasemjari, kom næstur fram á sviðið. Hann segir ákall um breytingar í Reykjavík, meðal annars í leikskóla- og grunnskólamálum og nærþjónustu við íbúa. Hann sér fyrir sér að Viðreisn geti myndað meirihluta eftir kosningar. „Já ég sé fyrir mér að það geti gerst núna. Ég finn ákall um breytingar og Viðreisn getur verið þetta og er þetta breytingarafl. Við höfum metnað til að leiða breytingarnar í Reykjavík og við erum líka flokkur sem getur unnið með öllum,“ segir Aðalsteinn. Aðspurður hvort hann sjálfur vilji verða borgarstjóri ef Viðreisn myndi meirihluta svarar hann því játandi. „Að sjálfsögðu höfum við metnað til þess að vera í forystu, við höfum metnað til að leiða breytingar og að sjálfsögðu sækjumst við þá eftir að verða í forystu í þeim verkefnum. Það sem skiptir öllu máli er að við fáum sterka liðsheild, með sterka sýn á þær breytingar sem Reykvíkingar kalla eftir,“ segir Aðalsteinn. Þrjú hafa tilkynnt framboð til oddvita Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Enn gæti bæst í hópinn þar sem framboðsfrestur er til 16. janúar. Leiðtogaval verður 31. janúar. Björg Magnúsdóttir, handritshöfundur og aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar í borgarstjóratíð hans, tilkynnti framboð sitt í dag. Hún telur að Reykvíkingar vilji breytingar; kerfið sé dýrt, flækjustigið mikið og lögbundin grunnþjónusta ekki sæmandi höfuðborginni. „Það er ákall eftir breytingum út um alla borg, því var lofað fyrir síðustu kosningar, en það gekk ekki eftir eins og við þekkjum og vitum. Daglegt líf fjölskyldna í borginni er bara einhver tetrisleikur sem enginn ræður við. Þannig að þessu langar mig að fara að breyta, í alvörunni breyta,“ segir Björg. Hún segist ekki tilbúin að svara því hvort hún vilji verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur. „Ég er fyrst og fremst hérna af því ég brenn fyrir málefnunum. Ég er ekki með eitthvað risastórt egó eða þörf fyrir að verða hitt eða þetta eða sækjast eftir einhverjum titlum,“ segir hún. „Ég sé fyrir mér að gera breytingar fyrir borgarbúa, við skulum orða það þannig og við skulum halda því þannig í bili,“ segir Björg. Þrjú hafa tilkynnt framboð til oddvita Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Enn gæti bæst í hópinn þar sem framboðsfrestur er til 16. janúar. Leiðtogaval verður 31. janúar.