Huldukonan: „Íslenskir lesendur meira en tilbúnir til að njóta ævintýra“

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar: Í Huldukonunni eftir Fríðu Ísberg er rakin saga fimm kynslóða Lohr-ættarinnar sem á uppruna sinn í því þegar Daninn Peter Lohr settist að með konu sinni Margréti og dætrum þeirra, Jóhönnu og Karlottu, í Dýrleifarvík á Vestfjörðum í upphafi tuttugustu aldar. Þar stofnar hann verslun sem blómstrar á tímum þegar búið var á fimmtán bæjum í víkinni og þrjátíu bátar gerðir út frá verinu. Þegar sagan hefst eru hins vegar ríflega átta áratugir liðnir frá því að Peter Lohr reisti glæsilegasta hús sýslunnar í víkinni og byggðin hefur farið í eyði. Aðalpersónur bókarinnar eru konurnar í fjölskyldunni og vísa flestar kaflafyrirsagnir til þeirra sem heildar. Það eru konur af þremur kynslóðum Lohr-ættarinnar sem eru í forgrunni í bókinni, elstar eru systurnar Jóhanna og Karlotta, sú fyrrnefnda er þó löngu horfin þegar frásögnin hefst. Í næstu kynslóð eru dætur Karlottu, Ingibjörg og Gréta, og þriðja kynslóðin samanstendur af Lottu, dóttur Grétu, og Ásu og Elínu, dætrum Ingibjargar. Sú síðastnefnda á soninn Sigvalda sem flétta verksins snýst að miklu leyti um. Dálítið erfitt er að átta sig á þessum kvennafansi í upphafi og vilja þær renna nokkuð saman en lesanda til aðstoðar er birt ættartré aftast í bókinni sem gott er að leita til öðru hverju við lesturinn. Það er að öllum líkindum meðvitað hjá höfundi að ljá konunum ekki sérstaklega sterk persónueinkenni hverri fyrir sig því þær eiga að birtast sem eitt kvenlegt og ráðandi afl innan verksins og sem slíkt afl eru þær afskaplega skemmtilegur þáttur í sögunni, ekki síst fjórða kynslóðin, Ása, Elín og Lotta, sem eru allar háar og ljóshærðar, fjörugar og miklar vinkonur sem halda hópinn en rekast illa með öðrum. Þær eru „stöllurnar þrjár“, allar á svipuðum aldri, góðar hver við aðra en erfiðar og jafnvel andstyggilegar við aðra. Lýsingin á þessu þríeyki á unglings- og snemmfullorðinsárum er dásamleg, ekki síst á ásta- og hjónabandsmálum þeirra þriggja. Ástarsögur eru nokkrar sagðar í bókinni, ekki bara sögur þríeykisins sem allar fá þá menn sem þær óska sér, heldur einnig harmræn ástarsaga Ingibjargar, móður Ásu og Elínar, sem elskaði mann í þrjá mánuði, missti hann í sjóinn og syrgði í hálfa öld. Þessar kvenna- og ástarsögur eru mjög fagmannlega fléttaðar, textinn rennur vel, er á fallegu máli og fjörlegur. Að vissu leyti minna þær lesandann á verk Kristínar Marju Baldursdóttur, sem er meistari í að lýsa kvennahópum eins og þeir vita sem lesið hafa Mávahlátur og bækur hennar um Karitas. En ástarsögurnar mynda nokkur konar aukafléttur innan fjölskyldusögunnar en aðalflétta verksins snýst um Sigvalda, son Elínar, sem er fyrsti karlmaðurinn sem fæðist inn í fjölskylduna í fjórar kynslóðir. Sigvaldi er miklum mannkostum búinn, myndarlegur, duglegur og góðhjartaður, en konunum í fjölskyldunni til mikillar armæðu hefur hann ekki gengið út og þegar saga hefst hefur hann sest einn að í ættaróðalinu í Dýrleifarvík og allt bendir til þess að örlög hans verði að hokra þar sem sérvitur einbúi til æviloka. Þar til að hann birtist einn daginn á heimili móður sinnar og ömmu með ungbarn upp á arminn, dóttur sína sem hann nefnir Dýrleifu eftir víkinni og neitar að gefa upp hver barnsmóðir hans er. Þetta er ráðagáta verksins, hver er huldukonan – eins og konurnar í fjölskyldunni kalla hana – sem hefur fætt Sigvalda barn? Það er ráðgáta sem konurnar í fjölskyldunni eru staðráðnar í að komast til botns í. Frásögnin af tilraunum kvennanna til að leysa ráðgátuna er skemmtileg en hvorki gengur né rekur hjá þeim að komast að hinu sanna. Þangað til söguþráðurinn tekur óvænta beygju inn í hulduheim, eða kannski öllu heldur inn í heim fantasíu og ævintýra. Og þó, beygjan er ef til vill ekki svo óvænt því framan af sögu hefur ýmislegt skrýtið, eða ætti ég að segja dulrænt, verið á seyði. Sögusagnir um huldufólksbyggð í Dýrleifarvík eru á kreiki og konurnar í fjölskyldunni hafa margar reynslu af undarlegum draumförum. Þannig var Elín, móðir Sigvalda, til að mynda sótt í draumi yfir í annan heim til að hjálpa konu í barnsnauð. Slíkar frásagnir eru þekktar úr íslenskum huldufólkssögum, sem og sögur af fögrum sjölum eða gripum sem eiga uppruna sinn hjá huldufólki. En sá hulduheimur sem við göngum inn í, í skáldsögu Fríðu Ísberg, er ekki að öllu leyti sá sami og hulduheimur íslenskra þjóðsagna og ég verð að játa að það ruglaði mig dálítið í ríminu við lesturinn. Hulduheimur Fríðu er einhvers konar hliðarheimur við okkar veröld um leið og hann er handanheimur, það er að segja jafnvel sambland af veröld hinna dánu og veröld huldufólks. Svipuð lögmál virðast á ferðinni í þessum heimi og í okkar heimi að undanskildum nokkrum atriðum eins og veðurfari og tæknivæðingu; í hulduheiminum er aldrei vont veður og þar þekkist ekki rafmagn, svo dæmi sé tekið. Þess skal getið að Fríða Ísberg hefur lýst því í viðtölum að hana hafi langað til að búa til nýjan hulduheim, smíða ný lögmál sem giltu um þann heim. Og það hefur hún gert þótt hún nýti sér hefðbundnar íslenskar huldufólkssögur og jafnvel önnur þjóðsagnaminni líka að einhverju leyti. En hún smíðar til dæmis eigin lögmál um það hvernig hægt er að ferðast á milli heima og hafa samskipti heima á milli og þjóna þau lögmál ágætlega samhengi skáldsögunnar. Hulduheimurinn tekur yfir við miðbik sögunnar og eftir það er lesandi á lendum ævintýrisins sem reynist geyma lykla að öllum óráðnu gátum fyrri hluta bókarinnar og „loksins kemur allt saman“, eins og segir á einum stað. Ef marka má viðtökur bókarinnar er óhætt að segja að íslenskir lesendur séu meira en tilbúnir til að njóta ævintýra ekki síður en ástarsagna, glæpasagna, sögulegra skáldsagna og sagna úr íslenskum raunveruleika og er það vel. En aðall sögunnar er hversu vel hún er skrifuð og hversu skemmtilegar konurnar í fjölskyldunni eru sem hópur. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntarýnir Víðsjár, fjallar um skáldsögu Fríðu Ísberg, Huldukonuna. Soffía Auður Birgisdóttir er doktor í bókmenntafræði og starfar við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún flutti pistilinn í Víðsjá sem finna má í spilaranum hér fyrir ofan