Fleiri fóru í kirkju um jólin en færri sendu jólakort og keyptu lifandi jólatré

Fleiri fóru í kirkju um eða fyrir jólin en undanfarin ár, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Rúmlega tvöfalt fleiri voru með gervijólatré en lifandi. Álíka margir hlökkuðu til jólanna og undanfarin ár og hið saman á við fólk sem kveið þeim. 5% svarenda sögðust kvíða síðustu jólum, 60% sögðust hlakka til þeirra og 18% sögðust bæði hlakka til og kvíða þeim. Þeim sem fóru í kirkju fyrir eða um jólin fjölgaði úr 17% í 23% milli ára, eftir að hafa fækkað úr 34% fyrir fjórtán árum. Þó er óvíst hvert tilefnið var, til að mynda hvort fólkið fór til messu eða á aðra viðburði, líkt og tónleika. Nær allir landsmenn gáfu jólagjafir, skreyttu heimilið og héldu eða fóru í jólaboð – eins og fyrri ár. 86% voru með jólatré og var þar lítil breyting á. Síðustu fimmtán ár hefur þeim sem hafa gervijólatré fjölgað og þeim sem hafa lifandi jólatré fækkað. 63% voru með gervijólatré síðustu jól en fjórðungur svarenda var með lifandi jólatré. Þeim hefur fækkað jafnt og þétt sem senda jólakort í pósti. Það gerir einn af hverjum tíu landsmönnum, samkvæmt Þjóðarpúlsinum, en fyrir fimmtán árum sendu þrír af hverjum fjórum jólakort með hefðbundnum pósti. Rafrænum jólakveðjum hefur líka fækkað síðustu ár. Eldra fólk og konur eru líklegri til að senda jólakort eða rafræna jólakveðju. Nær 11% sögðust ekki eiga fyrir jólahaldinu og er það svipað og síðustu ár. Það hlutfall hefur þó lækkað síðustu áratugi. Árið 1993 sögðust 19% ekki eiga fyrir jólahaldinu. Álíka margir styrktu góðgerðarmál og undanfarin tvö ár, eða rúmlega 60%, en það gerðu 68% árið 2022. Könnun Gallups var gerð dagana 11. til 31. desember 2025. Heildarúrtaksstærð var 1.754 og þátttökuhlutfall var 45,7%.