Brot starfsmannsins hjá Útlendingastofnun tilkynnt til lögreglu

Starfsmaður Útlendingastofnunar (ÚTL) sem deildi nöfnum skjólstæðinga sinna í lokuðum hópi á Instagram hefur verið tilkynntur til lögreglu í ljósi alvarleika brotsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni. Starfsmaðurinn hefur lokið störfum hjá Útlendingastofnun. Farið hefur verið yfir ákvarðanir sem viðkomandi hafði aðkomu að í störfum sínum til að ganga úr skugga um að verkferlum sem eiga að tryggja gæði ákvarðana hafi verið fylgt í hvívetna. Við þá yfirferð kom ekkert fram sem gefur tilefni til að endurskoða eða taka upp að nýju ákvarðanir sem starfsmaðurinn hafði aðkomu að. Ekkert bendir til þess að viðkomandi hafi áður viðhaft slíka háttsemi og gengur stofnunin út frá því að um tilvikið sé einangrað. Brot á trúnaði ekki liðin Brotið var tilkynnt sem öryggisbrestur til Persónuverndar sem hefur nú hafið frumkvæðisathugun á öryggi við vinnslu persónuupplýsinga hjá Útlendingastofnun í því skyni að afla upplýsinga og gagna til athugunar á því hvort tilefni sé til að hefja úttekt eða frumkvæðisathugun á vinnslunni. Í tilkynningunni er haft eftir forstjóra stofnunarinnar, Kristínu Völundardóttur, að brot á trúnaði verði ekki liðin innan stofnunarinnar. Ég geri þá kröfu að starfsfólk Útlendingastofnunar standi undir þeirri ábyrgð sem fylgir meðhöndlun viðkvæmra persónuupplýsinga. Traustið sem skjólstæðingar okkar sýna okkur byggir á því, og ég vil vera skýr um að brot á trúnaði verða ekki liðin innan stofnunarinnar. Útlendingastofnun hefur ekki orðið við viðtalsbeiðni fréttastofu vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.