Krullusambandið forðast annan kústskandal

Krulluhluti Vetrarólympíuleikanna í Mílan og Cortina hefst 4. febrúar. Óvenjulegt er að íþróttasambönd breyti keppnisreglum svo stuttu fyrir leika en það hefur Alþjóða krullusambandið nú gert. Ástæðan er vaxandi áhyggjur á meðal krulluiðkenda að of margir séu farnir að hægja á steinunum með sérstækri sóptækni, nokkuð sem þykir ekki í anda leiksins. Kústarnir séu fyrst og fremst ætlaðir til að steinarnir renni lengra auk þess sem hægt er að stýra þeim örlítið á leiðinni. Í hverri lotu kasta liðin steinum sínum til skiptis sem næst miðju hringsins á hinum enda brautarinnar þar til bæði lið hafa kastað átta steinum. Það lið sem á steininn næstan miðju fær stig eftir því hversu margir steinar þess eru nær miðju en hitt liðið. Tveir leikmenn liðsins geta svo sópað á undan steininum sem bræðir ísinn örlítið fyrir framan hann og þannig rennur hann lengur og beinna. Færir sóparar geta þannig haft mikil áhrif á það hvar steinn endar en einhverjir hafa komist upp á lagið með að hægja einnig á steininum með kústunum, nokkuð sem þykir ekki í anda leiksins. Í raun þykir málið það alvarlegt að Alþjóða krullusambandið sá sig knúið til að innleiða nýjar reglur sem hindra óprúttna sópara: Í stuttu máli má ekki ýta kústinum frá sér af of miklu offorsi heldur á að sópa fram og til baka í takti. Þegar sópað er með krafti, sér í lagi í átt að steininum, getur lausaís farið í veg hans og hægt þannig á honum. Dómarar á krullumótum mega nú fylgjast nánar með sópurum og verði þeir varir við brot á reglunum eiga þeir að fjarlægja steininn úr leik og vara liðið við. Kústaskandallinn mikli Þetta er ekki í fyrsta skipti sem krullusambandið þarf að skerast í leikinn þegar kemur að kústum. 2016 bannaði það öll efni í kústana nema eitt eftir skandal sem skók krulluheiminn. Rúmu ári áður fóru mörg bestu lið að nota nýja sópa sem gjörbreyttu íþróttinni. Þeir voru úr nýju efni sem var líkt við sandpappír, bara mun fínna. Í stað þess að bræða einungis ísinn rispaði sópurinn hann í raun og leikmenn lærðu fljótt aðferðir til að hægja á steininum sem og að stýra ferð hans mun nákvæmar. Þannig gátu sóparar látið steininn byrja að fara frá vinstri til hægri og svo beygt hann til vinstri á ný og fannst mörgum sem köstin sjálf væru hætt að skipta máli, sóparar gátu látið léleg köst líta út fyrir að vera frábær. Broomsgate -skandallinn náði hámarki á Stu Stells Tankard-mótinu í Toronto 2015 þegar lið Glenn Howard mætti með enn grófari kústa sem bókstaflega eyðilögðu ísinn. Liðið fór alla leið í úrslit gegn Mike McEwen og liði hans en það var eitt af fyrstu stórliðunum sem notuðu nýju kústana. Howard stakk upp á því við McEwen að hvorugt liðið myndu nota nýju kústana en hann neitaði. Leikurinn spilaðist mun hægar en eðlilegt þykir því það þurfti alltaf að laga ísinn eftir hvert kast Howard-liðsins. Flestir voru sammála um að eitthvað þyrfti að gera í kjölfarið og svo fór að nýja efnið á kústana var bannað og allt virtist í lagi með kústa krullunnar þar til nú fyrir skemmstu að banna þurfti nýja tækni.