Þrjár yfirlýsingar vegna Palestínu frá jólum

Íslensk stjórnvöld undirrituðu þrjár sameiginlegar yfirlýsingar um stöðu Palestínu síðustu tvær vikur. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins . Yfirlýsingarnar varða áform Ísraela um landtökubyggðir á Vesturbakkanum, nýja ísraelska löggjöf sem þjarmar að starfsemi Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og mannúðarmál á Gaza. Á jóladag undirrituðu 15 ríki yfirlýsingu um að fordæma aðgerðir Ísraela um 19 fyrirhugaðar landtökubyggðir á Vesturbakkanum. Byggðir Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu eru ólöglegar en þeim hefur fjölgað síðustu ár. Þungar áhyggjur af stöðu mannúðarmála Landtökumenn hafa þar að auki ráðist í auknum mæli á Palestínumenn á Vesturbakkanum og spennan þar hefur stigmagnast samhliða stríðinu á Gaza. Landtökubyggðir á Vesturbakkanum voru rúmlega 140 árið 2022 og með fyrirhuguðum áætlunum ísraelska stjórnvalda stefnir í að þær verði um 210 á næstu misserum. „Áréttað er að aðgerðirnar brjóti ekki aðeins í bága við alþjóðalög heldur auki einnig hættuna á óstöðugleika og grafi undan möguleikanum á langvarandi friði og öryggi á svæðinu,“ segir á vef Stjórnarráðsins. Tíu ríki undirrituðu í lok desember yfirlýsingu þar sem þau lýstu þungum áhyggjum af mannúðarástandinu á Gaza. Þau kölluðu eftir því að félagasamtök og stofnanir Sameinuðu þjóðanna geti haldið áfram starfsemi á Gaza. Sjö ríki undirrituðu þriðju yfirlýsinguna í vikunni. Þar fordæma þau nýja löggjöf Ísraela, sem beint er að UNRWA. Hún felur meðal annars í sér að loka fyrir vatn, rafmagn og fjarskipti til starfsstöðva hennar. „Jafnframt er skorað á Ísrael að tryggja að alþjóðleg félagasamtök fái áfram starfað á Gaza, og eins að brýnt sé að virða friðhelgi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegan mannúðarrétt.“ 420 drepnir síðan vopnahlé hófst Í báðum síðarnefndu yfirlýsingunum er lýst þungum áhyggjum af stöðu mannúðarmála á Gaza. Þar glíma um 1,6 milljónir manna við alvarlegt fæðuóöryggi þrátt fyrir að flutningur hjálpargagna hafi verið aukinn þegar vopnahléi var lýst yfir í október. Rúmlega 71 þúsund hafa verið drepnir á Gaza síðan 7. október 2023, þar af rúmlega 420 frá því að vopnahlé tók gildi, samkvæmt gögnum heilbrigðisyfirvalda á Gaza.