Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir flugeldasölu þetta árið hafa gengið vel. Hún sé mikilvægur þáttur í fjáröflun einstakra björgunarsveita. „Það er misjafnt milli sveita en það geta verið allt að tveir þriðju af rekstrarfjárþörf ársins sem koma inn með þessari fjáröflun,“ segir hann. Minna var um hátíðarhöld á þrettándanum þetta árið en oft áður og voru til dæmis aðeins tvær brennur á höfuðborgarsvæðinu, í Gufunesi og í Mosfellsbæ. Jón Þór segir þetta þó hafa haft lítil áhrif á flugeldasölu í kringum þrettándann, gott veður hafi vegið þyngra. „Allt klárt fyrir næsta útkall“ „Í gær var fínt veður og mér sýnist að salan hafi verið talsvert betri í gær heldur en oft áður. En þá ber að hafa í huga að þetta er kannski eitt, tvö eða í besta falli þrjú prósent af þeirri sölu sem átti sér stað fyrir gamla árið,“ segir Jón Þór. Hann segir ekki sé opið á flugeldasölu alla daga á milli jóla og áramóta og helst sé það daginn fyrir og á þrettándanum sjálfum sem sölustaðir opna. Langmest af sölunni fer fram á gamlársdag og segir Jón Þór að allt að helmingur allrar flugeldasölu fari fram eftir hádegi þann daginn. Frágangi vegna flugeldasölunnar sé nánast lokið. „Víðast hvar eru bækistöðvar komnar í hefðbundið form og björgunartæki komin inn. Þeir sem voru með opið í gær eru á síðustu metrunum en núna er þetta búið og allt klárt fyrir næsta útkall,“ segir Jón Þór.