Dæmi um að fólki sé ekki hleypt á salerni og þurfi að gera þarfir sínar í fangaklefum

Dæmi eru um fólk sé vistað án klæða, og hafi þurft að gera þarfir sínar í fangaklefum á Hverfisgötu. Aðbúnaður í fangelsinu er óviðunandi, að mati umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis gerði fyrirvaralausa athugun á fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu í Reykjavík í október. 40 blaðsíðna skýrsla með niðurstöðum var birt í dag. Umboðsmaður hafði ýmislegt út á aðbúnað að setja, og tilmælum er beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem ber ábyrgð. Þá var einnig birt eftirfylgniskýrsla til að fylgja eftir OPCAT-skýrslu sem kom út árið 2020. Ítrekað að fólki sé hleypt á salerni og þrifum sé sinnt án tafar Í skýrslunni um aðbúnað í fangageymslunni segir að dæmi hafi verið um að þeim, sem voru vistaðir í fangaklefum á Hverfisgötu, hefði ekki verið sinnt eftir að þeir hringdu bjöllu í klefa og að í kjölfarið hefðu þeir gert þarfir sínar inni í klefanum. Þegar það gerðist var þrifum ekki alltaf sinnt án tafar. Ítrekað er að mikilvægt sé að verða við beiðni fólks um að komast strax á salerni og að þrifum á þvagi, blóði og saur sé sinnt án tafar. Fólk vistað án klæða og dýna jafnvel fjarlægð Þá voru dæmi um að fólk sem var metið í sjálfsvígshættu hefði verið vistað án klæða og í einhverjum tilfellum var dýna fjarlægð. Þá er ítrekað að leita þurfi allra leiða til að forðast það að vista fólk klæðalaust. Pappírsarkir notaðar til að byrgja vistuðum sýn Þá hafði pappírsörkum verið komið fyrir á klefahurðum í þeim tilgangi að byrgja sýn vistraðra úr klefanum en umboðsmaður segir að ekki skuli gera slíkt nema í algerum undantekningartilvikum. Þá er enn og aftur vikið að heilbrigðisþjónustu þeirra sem vistaðir eru í fangageymslum og tilmæli úr eldri skýrslu þar að lútandi ítrekuð, meðal annars um að fólki sé tryggð nauðsynleg geðheilbrigðisþjónusta. Það geti þó ekki verið einungis á ábyrgð lögreglu. Dæmi um að viðmót lögreglu væri niðurlægjandi og gengið of langt í valdbeitingu Lögreglustjóra er einnig gert að gera ýmsar úrbætur í sambandi við eftirlit starfsfólks og sjá til þess að framkoma lögreglumanna í garð þeirra sem eru vistaðir í fangageymslu sé í samræmi við lög, mannúð og mannvirðingu. Dæmi voru um að viðmót lögreglu gæti talist niðurlægjandi fyrir þann vistaða og vísbendingar eru um að í einhverjum tilfellum hafi verið gengið of langt í valdbeitingu, þótt framkoma lögreglumanna hafi almennt verið fullnægjandi.