Foreldrar hafa fengið sig fullsadda af fáliðun á leikskólanum Funaborg í Grafarvogi sem staðið hefur yfir í nokkur misseri. Börn þurfa að vera heima einn og hálfan dag í hverri viku. Borgarstjóri Reykjavíkur segir aðgerðina fyrst og fremst snúa að því að tryggja öryggi barna. „Fáliðun er fyrst og fremst gerð til þess að tryggja öryggi barna, ef það eru of fáir starfsmenn þá verður að fækka börnunum líka.“ Segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, í kvöldfréttum. Börn í leikskólanum Funaborg í Grafarvogi þurfa að vera heima einn og hálfan dag í hverri viku vegna manneklu. Foreldrar krefjast svara frá borginni. Borgarstjóri Reykjavíkur segir fáliðunina fyrst og fremst vera til þess að tryggja öryggi barna. Ráðningar gengið illa Heiða segir það miður að grípa þurfi til þessara aðgerða, þær bitni bæði á börnunum og forráðamönnum. Reykjavíkurborg vinnur nú að nýjum tillögum til þess að bregðast við manneklunni, Heiða segist eiga von á að þær verði birtar von bráðar. Foreldrar hafa fengið sig fullsadda og krefjast svara frá borginni. Alls vantar um fimmtíu starfsmenn til þess að leikskólar borgarinnar veði fullmannaðir. Erfiðlega hefur gengið að ráða í stöður leikskólastarfsmanna en Heiða segir flókið að púsla saman mismunandi vöktum starfsmanna. „Það eru kannski þessir styttri stubbar sem hafa verið erfiðari, það þarf að manna allan tímann. Það sem við höfum svolítið verið að horfa á er hvort að við getum höfðað til foreldra um að skrá einungis þann tíma sem þau nota, og þá ættum við að geta náð utan um þetta.“ Bitnar mest á börnunum Fáliðunaráætlun hefur staðið yfir í nokkur misseri á leikskólanum Funaborg, fyrst hálfur dagur í viku, svo einn dag í viku og nú á mánudaginn var tilkynnt um að skerða yrði þjónustu allra barna á leikskólanum um 30% eða einn og hálfan dag á viku. Foreldrar barna á leikskólanum Funaborg eru orðnir langþreyttir á manneklunni; Ólöf Eiríksdóttir, foreldri á leikskólanum, segir ástandið vera óásættanlegt. Börn í leikskólanum Funaborg í Grafarvogi þurfa að vera heima einn og hálfan dag í hverri viku vegna manneklu. Foreldrar krefjast svara frá borginni. Borgarstjóri Reykjavíkur segir fáliðunina fyrst og fremst vera til þess að tryggja öryggi barna. „Við foreldrarnir tókum okkur fjögur saman og erum að reyna að skipta svolítið á milli. Ef við horfum fram á að þetta sé alveg út maí, þá eru þetta 32 frídagar yfir önnina sem eru í fáliðun.“ Ástandið segir hún bitna mest á börnunum, foreldrarnir reyni sitt allra besta til þess að halda þeirri rútínu sem börnin séu vön á leikskólanum. Skoða að stofna afleysingarhóp starfsmanna Heiða segir að fáliðun sé á tveimur leikskólum í borginni, hún segir fáliðunina vera álagsvaldandi fyrir starfsfólk leikskólanna sömuleiðis. Alls vantar um 50 starfsmenn til þess að fullmannað verði á leikskólum borgarinnar. „En annars er fólk að bæta við sig vinnu sem að eykur álag og síðan getur það haft áhrif á aukin veikindi sem að við erum líka að horfa upp á og getur verið alvarlegt.“ Til stendur að skoða hvort svokallaður afleysingahópur starfsmanna, sem myndi færa sig á milli leikskóla, verði stofnaður m.a. til þess að bregðast við fáliðun á Funaborg. Ólöf segir nauðsynlegt að Reykjavíkurborg stígi inn í og leysi þetta vandamál. „Nú þurfum við bara að láta aðeins í okkur heyra. Maður er að fá leikskólapláss og við erum að gera ráð fyrir að fá þessa vistun og fólk er að ráða sig í vinnu samkvæmt því. Það er rosalega vont að missa 30% á einu bretti.“