Enn liggja engar áþreifanlegar upplýsingar um að Bandaríkin ætli að gera innrás í Grænland. Mikilvægt sé að hafa það í huga að sögn sérfræðings í varnarmálum. Fréttamaður RÚV sem er í Grænlandi segir áhrif þess ef Bandaríkin ráðast inn eða taka yfir Grænland greinileg. Íbúar spyrji sig um framhaldið og sumum finnist ríkisstjórnin ekki tala nógu skýrt. Grænland er ekki og verður ekki til sölu Bandarísk stjórnvöld slá í og úr um aðferðir við að ná Grænlandi á sitt vald. Talskona Hvíta hússins sagði í gærkvöld að verið væri að skoða mismunandi leiðir til að innlima Grænland og beiting hervalds kæmi til greina. Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er hins vegar sagður hafa fullvissað þingmenn á Bandaríkjaþingi í gær um að hótanir Trumps um hervald væru herbragð til að auka þrýsting á Dani um að gefa Grænland eftir. Sérfræðingur í varnarmálum segir mikilvægt að halda því til haga að enn séu engar áþreifanlegar upplýsingar um að Bandaríkin ætli að ráðast inn í Grænland. Fréttamaður RÚV sem staddur er á Grænlandi segir íbúa þar spyrja sig um framhaldið. Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum, segir mikilvægt að hafa í huga að ekki liggi fyrir upplýsingar um að Bandaríkin ætli að gera innrás í Grænland. „Ég held við ættum að hafa í huga að það liggja nú ekki fyrir neinar áþreifanlegar eða harðar upplýsingar sem benda til þess að ætlunin sé að gera innrás í Grænland. Hins vegar er það alveg víst að Bandaríkjaforseti vill að Bandaríkin eignist Grænland.“ Aaja Chemnitz, þingkona á Grænlandi, segir tvær fylkingar vera til staðar. Önnur vilji innlima Grænland en hin semja um kaup á landinu. „Hvorug ætti að ná sínu fram. Grænland er ekki til sölu og verður aldrei til sölu.“ Hallgrímur Indriðason fréttamaður og Víðir Hólm Ólafsson myndatökumaður komu til Grænlands í dag. Hallgrímur segir íbúa spyrja sig töluvert um framhaldið en að líka sé verið að ræða mikið um áhrifin sem þetta geti haft og er jafnvel þegar farið að hafa. „Meðal annars var viðtal við konu í grænlenska sjónvarpinu sem sagði að þessi ummæli Trumps um helgina, að sjá til hvað gerist eftir 20 daga, séu spennandi á mjög neikvæðan hátt.“ Einnig hafi heyrst raddir sem finnist ríkisstjórnin ekki tala nógu skýrt. „Og að meðal annars sé skortur á einhvers konar áætlunum um hvað hún ætli að gera ef allt fer á versta veg. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvaða áhrif öll þessi orðræða er að hafa og sýnir að þetta er að skapa hjá mörgum töluvert óöryggi.“ Evrópuleiðtogar einarðir í stuðningi við Grænland Evrópuleiðtogar eru einarðir í stuðningi sínum við Grænland og hafa mótmælt því að Bandaríkin taki yfir landið á þann hátt sem samrýmist ekki vilja Grænlendinga. Meðal annars er búið að tilkynna að utanríkisráðherra Kanda komi hingað til Grænlands í byrjun febrúar til að opna sendiskrifstofu. Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir meðal annars að í hans huga sé engin sviðsmynd þar sem Bandaríkin kæmust í stöðu til að brjóta gegn fullveldi Danmerkur. „Það er bara óhugsandi.“ Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir Danmörku, Grænland og konungsríkið ekki aðeins þau sem standi í þessari deilu. „Í dag hafa stærstu ríki Evrópu ásamt Kanada lýst yfir fullum stuðningi við okkur. Evrópusambandið gaf út yfirlýsingu í fyrra sem öll 27 aðildaríkin stóðu að. Þetta er alvarleg staða og það er óvíst að okkur takist að breyta afstöðu Bandaríkjanna svo við þurfum að verja okkar stöðu.“ Albert segir ljóst að samkipti milli Bandaríkjanna, Grænlands og Danmerkur séu erfið. „Það er greinilega uppi vandi í samskiptunum milli Bandaríkjanna og Grænlands, Danmerkur og vandamál í NATO af þessum sökum. Ef eitt bandalagsríki ræðst á annað er ekki hægt að sjá neitt annað fyrir sér en að bandalagið legðist af, í núverandi mynd að minnsta kosti.“ Bandaríkjamenn hafa allt sem þeir þurfa að vilja í Grænlandi Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í dag að hann ætlaði að funda með fulltrúum Danmerkur og Grænlands í næstu viku. Hallgrímur segir enn óvissu um hvar og hvenær þessir fundir fara fram. „Það eina sem Marco Rubio sagði í dag var að hann vildi ekki tjá sig neitt um hugsanlegt hernám á Grænlandi þar sem hann væri að fara að hitta dönsk stjórnvöld og hann myndi eiga þetta samtal þar. Vivian Motzfeldt utanríkisráðherra Grænlands staðfesti síðan við dagblaðið Sermitsiaq að hún myndi líka vera á þessum fundi þannig að þarna eru allavega komin þau beinu samskipti við Bandaríkin sem Jens-Frederik Nielsen, formaður landsstjórnar Grænlands, hefur lengi óskað eftir.“ Albert Jónsson telur ekki líklegt að Trump láti verða að því að hernema landið. „Grænland skiptir feikilega miklu máli fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna og er algjör lykilstaður. Það eru ratsjár nyrst í Grænlandi sem eru lykilatriði fyrir loftvarnir og geimvarnir Norður-Ameríku.“ Bandaríkjamenn hafi haft þessar stöðvar í áratugi og þeir hafi allt sem þeir þurfi og vilji í hernaðarlegu tilliti í landinu. „Svo hefur forsetinn talað um málma. Grænland er auðugt af málmum að talið er. Það er ekkert auðvelt að komast í það. Grænland er eins og allir vita risastórt land og innviði skortir mjög mikið. Svo eru ýmsar kenningar uppi um hvað forsetanum gangi til, og ein af þeim er sú að hann vilji láta muna eftir sér sem forsetanum sem bætti við Bandaríkin eins og þegar Andrew Johnson, þáverandi forseti, keypti Alaska 1867.“