Auðvelt er að fá á tilfinninguna að heimurinn sé á heljarþröm þegar horft er á fréttatíma. Hjálmar Gíslason, frumkvöðull, segir eðlilegt að fólk upplifi slíkar tilfinningar eftir áhorf á annála eða fréttatíma en að oft gleymist það að heimurinn sé betri en flestir telja. „Það sem gengur vel er að það gerist hægt og yfir tíma og við missum af jákvæðu þróuninni á meðan að það sem er neikvætt er að það gerist oft innan eða það passar inn í 24 tíma fréttahringinn og gerist mjög skyndilega.“ Því segir hann neikvæðar fréttir oft verða dómínerandi og því missi fólk oft af jákvæðri þróun sem á sér stað yfir lengri tíma. Það er auðvelt að fá á tilfinninguna að heimurinn sé á heljarþröm þegar horft er á fréttatímana. Hjálmar Gíslason, frumkvöðull, segir oft gleymast að heimurinn sé betri en sú mynd sem máluð er upp af honum í fréttatímum. Henný Hinz, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir almennt ganga vel á Íslandi og þá sérstaklega í alþjóðlegum samanburði. „Við erum auðvitað mjög framarlega varðandi bara lífskjör og almenna velsæld, hér er efnahagsleg velsæld ein sú mesta í heimi, þjóðartekjur á mann einna hæstar, við röðum okkur efst á lista varðandi kynjajafnrétti, mannréttindi.“ Henný bendir einnig á að Íslendingar njóti almennt friðar og öryggis, einnig sé lýðræðisþátttaka og umræða almennt opin. Atvinnuþátttaka á Íslandi er ein sú mesta í heiminum, Henný segir íslenska vinnumarkaðinn sömuleiðis vera einn sá sterkasta í heimi og að atvinnuleysi sé að jafnaði lágt sé miðað við önnur lönd. „Almenn lífskjör hafa batnað mjög mikið á seinustu áratugum ef við horfum bara rúma þrjá áratugi aftur í tímann.“ Mikilvægt að teikna upp bjarta framtíð Hjálmar segir að mikilvægt sé að hafa jafnvægi á milli útópíunar og dystópíunar, alltaf þurfi að gera ráð fyrir þeim hlutum sem geti farið úrskeiðis en jafnframt sé mikilvægt að horfa fram á veginn. „Ef enginn er að fara teikna upp myndina af bjartri framtíð þá er enginn að fara berjast fyrir bjartri framtíð.“ Henný segir það þó miklvægt að benda á þá hluti sem betur megi fara til þess að vinna að umbótum, aðalvandinn í dag sé að fólk fái of skamman tíma til þess að fjalla um hlutina. „Fréttir eru stuttar, snarpar, það á að koma öllu til skila, helst á 30 sekúndum og það gefur ekki rými til þess að hafa núansa í umræðunni.“