Greinendur segja að dregið geti svolítið úr bílasölu í Bandaríkjunum á þessu ári. Þeir segja kaupendur orðna varari um sig fjárhagslega auk þess sem hægst hafi á vinnumarkaði. Samdrátturinn geti þó orðið minni en ella, meðal annars vegna lækkunar vaxta. Bílar hafa hækkað talsvert í verði síðasta áratug, og gætu hækkað enn. Því verður æ erfiðara fyrir lágtekjufjölskyldur að eignast nýtt farartæki. Verðlagning segja greinendur vera mikilvægan þátt í sveiflum á markaði. Söluaukning liðins árs er rakin til yfirlýsinga Donalds Trump forseta um miklar tollahækkanir, í fjörutíu af hundraði eða meira. Þótt niðurstaðan hafi orðið mun mildari leiddi umfjöllun fjölmiðla til umtalsverðrar aukningar í bílasölu á vormánuðum. Kaupendur flykktust aftur á bílasölur í september eftir að Trump undirritaði löggjöf um þrepaskipta lækkun allt að 7.500 dala skattaívilnunar við kaup á rafbílum. Yfirlýsingar og aðgerðir forsetans ýfðu fjaðrir forstjóra bílaframleiðenda og bílaumboða. Jim Farley, forstjóri Ford, sagði þegar í febrúar að Trump yki með þeim kostnað og ylli uppnámi. Þrátt fyrir það var niðurstaðan bærileg árið 2025, bílasala jókst um tvö prósent frá fyrra ári og alls voru keyptar sextán komma þrjár milljónir ökutækja. Ford tilkynnti á föstudag um sex prósenta söluaukningu frá 2024 og að síðasta ár hefði verið það besta síðan 2019.