Delcy Rodriguez, sitjandi forseti Venesúela, segir að árás Bandaríkjahers á laugardag hafi skaðað samskipti ríkjanna verulega. Hún kveðst þó reiðubúin til samvinnu á sviði orkumála ef bæði ríki hagnast á því. Bandaríkjastjórn kveðst vera að draga upp olíuvinnslusamning við stjórnina í Caracas eftir að herinn handsamaði Nicolas Maduro forseta og Ciliu Flores eiginkonu hans. Innanríkisráðherrann Diasdado Cabello segir hjónin hafa særst í aðgerðunum, hann á fæti og hún á höfði. Ráðherrann segir jafnframt að hundrað manns hafi týnt lífi í árásinni, hermenn og almennir borgarar. Áður hafði einungis verið greint frá dauða 23 hermanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti kveðst vera að undirbúa fund með Gustavo Petro Kólumbíuforseta, sem haldinn verður í Hvíta húsinu á næstunni. Fáeinir dagar eru síðan Trump hótaði Kólumbíu hervaldi. Hann sagðist í færslu á Truth Social hafa rætt símleiðis við Petro um ágreining þeirra, meðal annars tengdan eiturlyfjasmygli. Bandaríkjaforseti kvaðst í færslunni hafa kunnað að meta samtalið og að hann hlakkaði til fundarins við Petro. Trump bætti við að embættismenn beggja ríkja væru í óðaönn að undirbúa heimsókn Petros til Bandaríkjanna. Heimildarmenn tengdir Petro segja samtalið hafa verið á kurteislegum nótum og alúðlegt. Þannig lýsti Nicolas Maduro einnig símtali sem hann átti við Trump fáeinum vikum áður en Bandaríkjaher lét til skarar skríða gegn honum.