Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði tilskipun um brotthvarf frá 66 alþjóðastofnunum og samtökum í gær, eftir að hann fékk í hendur skýrslu um framlög Bandaríkjanna til allra alþjóðastofnana, meðal annars á vegum Sameinuðu þjóðanna. Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna og rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eru þar á meðal. Trump segir áframhaldandi samstarf Bandaríkjunum ekki til hagsbóta. Bandaríkin hafa undanfarið ár meðal annars sagt skilið við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, UNESCO og UNRWA og Parísarsáttmálann ásamt því að draga verulega úr framlögum til mannúðaraðstoðar. Brotthvarfið hefur leitt af sér verulegan samdrátt í starfsemi fjölda stofnana. Þær stofnanir sem tilskipunin nýja nær til tengjast margar loftslagsmálum, málefnum flóttafólks og vinnumarkaði. Slík málefni hafa verið Trump þyrnir í augum, stofnanir þeim tengdar kyndi undir fjölbreytileika og svokallaða vók-hugmyndafræði. Hann hefur einnig sagt loftslagsvísindi byggja á blekkingum. „Ákvörðun Trumps um að yfirgefa mikilvægustu loftslagsstofnanir heims er til marks um einræðishyggju hans og andúð á vísindum sem verður til að fórna velferð fólks og veikja alþjóðlega samvinnu,“ segir Rachel Cleetus, stefnumótandi hjá samtökunum Union of Concerned Scientists í samtali við AFP. Bandaríkin munu einnig láta af aðild að alþjóðastofnun sem sinnir lýðræðisumbótum og kosningaaðstoð, samvinnu ríkja við Atlantshaf og samstarfi um aðgerðir gegn hryðjuverkum, svo dæmi séu tekin. Stjórnarskráin er skýr um hvernig forseti staðfestir aðild að alþjóðasamstarfi en þar er ekkert að finna um hvernig henni er sagt upp. Það telja greinendur geta valdið lagalegri óvissu og einnig um hvernig snúið skuli aftur. Utanríkisráðherrann Marco Rubio sagði í yfirlýsingu að Trump-stjórnin teldi viðhorf stofnananna úrelt, þeim væri illa stjórnað, þær væru óþarfar, eyðslusamar og undir stjórn fólks sem skaraði eld að eigin köku. Það skapaði ógn við fullveldi og frelsi Bandaríkjanna og almenna velsæld landsmanna. Trump tilkynnti einnig í færslu á Truth Social að hann hefði rætt við þingmenn og aðra stjórmálamenn um þá fyrirætlun sína að hækka útgjöld til hermála um fimmtíu af hundraði.