Samtals verður 32 milljónum króna varið til kaupa á varaaflstöðvum fyrir heilbrigðisstofnanir á Norður- og Suðurlandi af þeim 77 milljónum sem Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að úthluta landsbyggðarstofnunum til endurnýjunar á tækjabúnaði. Féð kemur úr safnlið almennrar sjúkrahúsþjónustu sem ráðherra má ráðstafa til ákveðinna verkefna. Þaðan hafa þegar runnið 140 milljónir til kaupa á tölvusneiðmyndatæki fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Einnig verða veittir styrkir til kaupa á hjartastuðtækjum, ómtækjum og bráðabúnaði fyrir heilsugæslurnar auk flutningskassa fyrir nýbura. Á vef stjórnarráðsins segir að ráðstöfun fjárins byggi á forgangsröðun fyrir brýnustu þarfir stofnananna. Keyptar verða varaaflsstöðvar fyrir starfsstöðvar í Vestmannaeyjum, á Húsavík, Sauðárkróki, Blönduósi og á Siglufirði. Varaaflsstöðvar séu mikilvæg forsenda órofinnar og öruggrar heilbrigðisþjónustu, til að mynda ef illviðri eða annað veldur straumrofi. Þörf heilbrigðisstofnana fyrir varaafl hafi berlega komið í ljós þegar fárviðri gekk yfir landið í desember 2019. Því sé úrbóta þörf og víða þurfi einnig að bregðast við uppsafnaðri innviðaskuld svo tryggja megi öryggi sjúklinga, bæta þjónustu auk greiningar- og meðferðargetu stofnananna.