Fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Danmerkur og Grænlands í næstu viku

Bandaríski utanríkisráðherrann Marco Rubio kveðst ætla að hitta Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur í næstu viku að ræða málefni Grænlands. Hann lét þessi orð falla á blaðamannafundi í gær og sagðist að öðru leyti ekki vilja tjá sig um málið. Hann væri ekki þangað kominn til að ræða um hernaðaríhlutun á Grænlandi. DR kveðst ekki hafa fengið staðfestingu hjá danska utanríkisráðuneytinu þrátt fyrir tilraunir til þess. Lars Løkke Rasmussen og grænlenski utanríkisráðherrann Vivian Motzfeldt óskuðu á þriðjudag eftir fundi með Rubio og hún hefur staðfest þátttöku í fyrirhuguðum fundi. Ekkert verði ákveðið um Grænland án Grænlands. „Vitaskuld verðum við þar, við óskuðum eftir fundinum,“ sagði hún í samtali við DR. Lars Bangert Struwe, sérfræðingur í varnar- og öryggismálum, segir ásælni Bandaríkjanna í Grænland verulega óvenjulega. Enginn hafi ásælst landið lengi, lengi og það beri keim af mansali að ætla sér að selja eða kaupa það og Grænlendinga með. Staðan sé í raun vandráðin. Grænland sé lítið land og þurfi á liðsinni Danmerkur að halda í samningaviðræðum við Bandaríkin. Skynsamlegast væri að hætta að tala um alþjóðalög og samninga sem Donald Trump hafi engan áhuga á hvort eð er, heldur bjóða honum að stækka varnarstöðvar og setja upp net ratsjár- og eldflaugastöðva meðfram allri austurströndinni. Einnig væri þjóðráð að reyna að sækja stuðning til þeirra bandarísku þingmanna sem er minna sama um alþjóðareglur en ríkisstjórninni og heimsmyndina sem varð til eftir síðari heimsstyrjöld.