Íslenska landsliðið hefur heilt yfir átt ágætis frammistöður á síðustu stórmótum. En þegar á hólminn er komið hefur leikur liðsins verið sveiflukenndur milli leikja. Eitt tap til og frá vegur ansi mikið. Á heimsmeistaramótinu árið 2025 tapaði Ísland með sex marka mun gegn Króatíu og datt út. Ári áður, á EM 2024, tapaði Ísland með átta mörkum gegn Ungverjalandi í riðlakeppni, sem leiddi til þess að Ísland datt út. Í haust spilaði Ísland tvo æfingaleiki gegn Þýskalandi. Þar tapaði Ísland fyrst með ellefu mörkum en vann síðari leikinn með tveimur mörkum. Hvað útskýrir sveiflurnar? Hver er lausnin? Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari og þeir Bjarki Már Elísson og Orri Freyr Þorkelsson ræddu málið. Hvað útskýrir þessar sveiflur? Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari segir að liðsmenn þurfi að vera 110% á vellinum, annars sé liðið miðlungslið. „Þetta sýnir hvað þarf til þess að við séum góðir. Við höfum sýnt að þegar við erum þarna þá er helvíti mikið spunnið í þetta lið. En þetta er líka helvíti fljótt að fara í hina áttina. Leikirnir í Þýskalandi sýndu okkur að ef við erum ekki 110% þá erum við ekki mikið meira en eitthvað miðlungslið. Ég held að það sé fínt veganesti inn í helgina. En ég hef svo sem ekki áhyggjur af því þegar kemur að stórmótinu, að menn verði á tánum,“ sagði Snorri. Innslagið má sjá hér að neðan. Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur sveiflast mikið milli leikja síðustu stórmót. Frammistöður gegn Þýskalandi fyrir áramót voru eins sveiflukenndar og hægt er, frá ellefu marka tapi til tveggja marka sigurs. En hver er lausnin? Hvernig minnkum við sveiflur? Til eru ráð inni á vellinum. Hornamannateymið í vinstra horninu, þeir Orri Freyr Þorkelsson og Bjarki Már Elísson, ræddu mögulegar lausnir. „Þegar það koma þessi augnablik, þá er oft eins og við séum svolítið þjakaðir af pressu finnst mér. Þá þarf bara einhverja töffara og einstaklingsgæði til að skera okkur úr snörunni. Einn extra bolti er varinn. Góð vörn. Einhver sem tekur af skarið í sókninni. Þannig léttirðu aðeins á mönnum,“ sagði Bjarki Már. „Við erum með nóg af töffurum í þessu liði. Vonandi verða þessir kaflar styttri og við vinnum riðilinn, til að byrja með“ - Bjarki. Orri Freyr kallar eftir jafnvægi og nefnir þar Þýskalands leikina fyrir áramót. „Sérstaklega þegar við sjáum muninn á leikjunum á móti Þýskalandi. Að fá þessa yfirvegun og jafnvægi. Að missa ekki leikina frá okkur á stuttum tíma. Við erum alltaf að finna betur og betur takt til að leikirnir þróist ekki í þessa átt.“ „En heilt yfir myndi ég segja að við séum að þróast að því í rétta átt, til að bæta okkur,“ sagði Orri að lokum.