„Við vildum bara líflegri arkitektúr og liti og hugguleg hús“

Trausti Valsson arkitekt og skipulagsfræðingur er gamall hippi og var að læra í Vestur-Berlín þegar óeirðirnar þar urðu hvað mestar. „Það voru tveir skotnir á götum úti, stúdentar, annar drepinn og það var allt á suðupunkti þegar ég kem út,“ rifjar hann upp. Þetta var árið 1967, aðeins sex árum eftir að Berlínarmúrinn var reistur. „En það sem fylgdi okkur hippunum, því þetta var ungmennabylting og við bjuggum allt í einu við alls konar skrítna hluti úr fortíðinni – sérstaklega Þjóðverjarnir við nasistatímann, það var uppreisn gegn öllum þessum gömlu gildum og eitt af því var arkitektúrinn.“ Trausti Valsson varð áttræður í vikunni og opnaði í tilefni þess sýningu í Hönnunarsafni Íslands sem ber heitið Litir, skraut og lífsgleði. Fyrir jólin gaf hann einnig út bókina List & hönnun. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Trausta í Segðu mér á Rás 1. Finnur ekki fyrir neinu sem kallast elli Trausti segist ekki vera þekktur fyrir að láta neitt stoppa sig. Þegar hann fái hugmyndir þá framkvæmi hann þær. Hann segist heldur ekki finna fyrir aldrinum sem er að færast yfir. „Ég skil þetta ekki með aldur og tíma. Ég hef enga tilfinningu fyrir því að verða áttræður. Ég er í góðu standi,“ segir hann og þakkar genunum það. „Ég skil eiginlega ekki hvernig stendur á því að ég sé að komast á níræðisaldurinn. Það er dálítið skrítin og óhugnanleg tala en ég finn eiginlega ekki fyrir einu eða neinu sem kallast elli.“ Það mátti helst ekki brosa Trausti rifjar upp tíma sinn í Vestur-Berlín og þá andstöðu sem nemendurnir voru í gagnvart öllu sem fyrri kynslóðin hafði gert. Gamli bærinn hafði verið óskaplega fallegur en búið var að ganga fram af honum með miklum krafti með því að höggva allt fallega skrautið af og mála húsin í gráum lit. „Þeir voru haldnir svo mikilli, eðlilega, sektarkennd út af framgöngu sinni í báðum heimsstyrjöldum og þeir máttu helst ekki brosa. Meira að segja yngri kynslóðin sem var með mér í skóla, foreldrar þeirra voru nasistar og breyttust náttúrulega ekki neitt þó að þau töpuðu stríðinu. Það heyrði alveg til undantekninga að þessir stúdentar hefðu nokkurt samband við foreldra sína. Það var svona mikil gjá á milli.“ „Við vildum bara líflegri arkitektúr og liti og hugguleg hús og elskum þetta gamla. Svo þegar þeir koma heim til Íslands, hipparnir, þá áttu þeir mikinn þátt í því að hefja byltingu í að bjarga gömlu Reykjavík.“ Þýddi ekkert að biðja um leyfi Sú bylting hófst á Torfunni, sögufrægu húsi í miðbæ Reykjavíkur sem stjórnvöld létu drabbast niður af ásetningi. Planið var að rífa húsið og byggja „sex hæða stál- og steypukassa sem átti að geyma stjórnarráðið.“ Hipparnir og listafólkið létu slag standa, fundu Bernharðsliti og mættu í hundraðatali með stiga og málningafötur einn góðan veðurdag og máluðu húsið á einum degi. „Það þýddi ekkert að biðja um leyfi til að snyrta þetta til.“ „Sægurinn af fólki mætti að mála, svart og okkurgult. Það var upphafið að litabyltingunni í gamla bænum, áður var allt grátt.“ Málningameistari skrifaði upp á að allt þetta fólk væri í vinnu hjá sér. „Lögreglan var náttúrulega þarna og fylgdist með þessu en ég held að engum hefði dottið í hug að fara að stoppa þetta.“ Ákvað að kynna sér alltaf báðar hliðar og miðla upplýsingum Trausti segir að sér hafi liðið vel í Vestur-Berlín á þeim fimm árum sem hann dvaldi þar. „Þetta var nú þessi hippatími og það var líka mikil spenna á milli austurs og vesturs á þeim tíma, kalda stríðið. Þarna laust austrinu og vestrinu saman með Berlínarmúrinn á milli. Það var ofboðslegt spennuástand, pólitískt.“ Hann segir Þjóðverjana hafa verið ansi öfgafulla en grunnreglan hefði verið sú að allt sem fyrri kynslóðin hafði gert væri snarvitlaust og það þyrfti að breyta öllu. „Það var mikið til í því, allavega í Þýskalandi þar sem allar þessar hörmungar nasistatímans lögðu næstum Evrópu í rúst.“ Í kennslustundum settust nemendur upp á púltið hjá kennaranum og sögðu að miklu mikilvægara væri að ræða Víetnamstríðið heldur en arkitektúr. Sjálfur var Trausti ekki pólískt þenkjandi áður en hann fór út. „Ég var frá konservatívu heimili og það kom ekkert nema Mogginn heim. Ég spekúleraði lítið og hef yfirleitt spekúlerað lítið í pólitík. Svo þegar ég var orðinn prófessor í skipulagsfræði í háskólanum þá tók ég þá stefnu að reyna að kynna mér alltaf bæði sjónarmiðin og vera túlkandi.“ Þá var hann fenginn í hina ýmsu þætti eða til stjórnmálaflokkanna til að útskýra hvað væri að gerast í skipulagsmálum. „Ég var bara með þessa stefnu að vera þessi neutral aðili sem skýrði og miðlaði upplýsingum.“ Breytir ekki þjóðfélaginu með því að hanna einbýlishús fyrir ríka Trausti byrjaði í arkitektúr í Þýskalandi en á meðan náminu stóð var sífellt verið að segja við nemendurna að þau yrðu að breyta þjóðfélaginu en það myndu þau ekki gera með því að teikna einbýlishús fyrir ríka fólkið, heldur ætti maður að beita sér í skipulaginu. Um skólann voru á víð og dreif plaköt sem á stóð: „Arkitektar: Hættið að teikna, hugsið!“ „Það hafði svo mikil áhrif á mig að ég fór að reyna að hugsa. Það gekk þokkalega og ég er búinn að vera að reyna það síðan. Ég er búinn að vera kennari í háskólanum í 30 ár og tók doktorsprófið mitt í Berkeley í Kaliforníu sem var dýrlegt. Ég er búinn að vera í þessu alla ævina og búinn að gefa út 15 bækur og 150 greinar.“ Honum þykir mikilvægt að miðla fræðunum áfram og eru því allar bækur hans og flestar greinar aðgengilegar á undirsíðu hans hjá Háskóla Íslands. Hann telur sig hafa haft töluverð áhrif á íslensk skipulagsmál með því að fjalla um málefnið og mæta í viðtöl. „Ég vona það og ímynda mér það, að þetta hafi orðið til einhvers góðs.“ Tók með sér kjötsúpu og málaði á morgnanna Árið 2023 fór Trausti með dótturdóttur sína í keramiksmiðjuna Noztru til að mála gjafir fyrir jólin. „Ég hafði aldrei komið þarna, þetta var alveg hugljómun fyrir mér.“ Hann komst að því að hægt væri að mála 37 sentímetra diska hvernig sem var og datt þá í hug að fullkomið væri að mála ákveðin „ornament“ sem hann hafði verið að leika sér með til fjölda ára. „Þetta smellpassar á þessa diska en svo er þetta miklu meiri vinna heldur en þessir tveir tímar sem eru úthlutaðir og það er svo mikill óróleiki sem er svo gaman.“ Hann hafði því samband við yfirmann Noztru og spurði hvort hann mætti koma á morgnanna þegar það væri rólegt og mála. „Ég kom bara með kjötsúpu með mér og svo tók ég til fótanna þegar allar ömmurnar komu eftir hádegið.“ Úr urðu 17 diskar sem eru nú til sýnis í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi. „Sýningin er komin til vegna áttræðisafmælisins. Þetta er dálítill atburður að vera kominn á níræðisaldurinn, finnst mér allavega.“ Forstöðumaðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir valdi heitið á sýningunni sem vísar í 40 ára grein sem Trausti skrifaði í tímaritið Hönnun sem hann gaf út ásamt frænda sínum, Kjartani. „Það var akkúrat það sem vantaði í nútímahönnun, liti og ornamentið og lífsgleðina. Það er búið að dauðhreinsa allt, þetta eru eins og kalkaðar grafir sem við búum í.“ Hann segir alla vilja vera eins í dag, eiga nákvæmlega eins hús sem eru innréttuð með sömu húsgögnunum. Það þykir honum ekki spennandi og hann telur alla liti og lífsgleði vanta. Fór aftur í listina í langa fríinu Trausti hefur skrifað 15 bækur og gaf út List og hönnun fyrir jólin. Hann var „sendur í langa fríið“ fyrir tíu árum, eða á eftirlaun. Hann segist því miður ekki hafa fundið lífsinnihaldið í golfinu eins og margir stungu upp á við hann. „Þannig ég fór aftur í listina.“ Hann fór að leira og mála og fjallar þessi nýjasta bók um listina sem hann hefur verið að föndra við alla ævina. „Þetta er svolítið ævisögulegt.“ Þegar hann hafði tíma fyrir listina aftur rifjaðist upp fyrir honum hve mikla unun hann hefði af henni. Hann segist ekki finna fyrir elli og þykir enn mikilvægt að miðla áfram fræðslu og þekkingu. Skipulagsfræðingurinn Trausti Valsson lærði í Vestur-Berlín á hippatímum þar sem mikil andúð var gagnvart öllu sem fyrri kynslóðin hafði gert. Hipparnir komu svo með þann hugsunarhátt heim. Hann fagnar áttræðisafmæli með sýningu í Hönnunarsafninu. Rætt var við Trausta Valsson í Segðu mér á Rás 1. Viðtalið má finna í spilaranum hér fyrir ofan.