Maður sem hefur keyrt leigubíl um áratugaskeið fékk rekstrarleyfi sitt til leigubílaaksturs ekki endurnýjað vegna dóms sem hann hlaut fyrir brot á lögum um vændiskaup. Í lögum um leigubílaakstur er ákvæði um að menn fái ekki leyfi til rekstrar ef þeir hafa brotið gegn kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Ákvæði um vændiskaup er að finna í þeim kafla. Dæmdur til sektargreiðslu Maðurinn var ákærður fyrir að hafa samband símleiðis við konu 2013, lofa henni 30 þúsund króna greiðslu fyrir vændi og fyrir að hafa farið að hitta hana. Hann mun hafa játað brot sitt og var dæmdur til 100 þúsund króna sektargreiðslu. Þegar bílstjórinn sótti um endurnýjun rekstrarleyfis var honum synjað vegna dómsins. Hann var ósáttur við þetta, taldi brotið á rétti sínum til atvinnu og sagði að auki að hann hefði aldrei nýtt sér vændisþjónustuna heldur aðeins samið um hana. Maðurinn reyndi að fá ákvörðun Samgöngustofu fellda úr gildi fyrir dómi en var hafnað. Að auki taldi maðurinn sér mismunað á grundvelli þjóðernis þar sem hægt væri að fletta upp í sakavottorði hans en það ætti síður við um erlenda bílstjóra. Því hafnaði dómarinn. Gott orðspor og öryggi farþega Í lögum um leigubílaakstur frá 2022 er kveðið á um að bílstjóri skuli hafa gott orðspor og verði þar meðal annars að líta til þess hvort hann hafi brotið lög. Smávægileg brot hafa áhrif í fimm ár. Stórfelld brot koma í veg fyrir útgáfu rekstarleyfis í tíu ár. Brot gegn kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga koma í veg fyrir útgáfu leyfis óháð því hversu langt er um liðið frá brotinu. Sem fyrr segir falla vændiskaup undir þann kafla. Dómarinn taldi ekki brotið gegn atvinnufrelsi mannsins þó að hann fengi ekki endurnýjað rekstrarleyfi þar sem heimildir væru fyrir því að skerða slík réttindi með lögum. Í þessu tilfelli væri það gert með tilliti til sjónarmiða um öryggi farþega. Maðurinn fékk gjafsóknarleyfi til að stefna ríkinu og greiðist kostnaður vegna réttarhaldanna því úr ríkissjóði.