Bjarni Már Magnússon hafréttarsérfræðingur segir aðgerðir Bandaríkjamanna, þegar þeir tóku yfir rússneskt skip í íslenskri efnahagslögsögu í gær og með árásum á meinta fíkniefnasmyglbáta við Venesúela, sýna að þeir sjá ekki hagsmuni sína í að viðhalda alþjóðlegu regluverki á hafi. „Lengi vel hefur það verið þannig að Bandaríkjamenn hafa verið þeir hörðustu í að halda uppi reglum á sviði hafréttar, [...] því þeir hafa hreinlega litið þannig á að það séu hagsmunir þeirra að halda uppi þessum reglum á hafinu. Þannig að þetta er töluvert sérkennilegt að sjá þá allt í einu haga sér með öðrum hætti en áður þegar kemur að því að halda uppi regluverkinu,“ sagði Bjarni Már í Morgunútvarpinu á Rás 2. Íslenska ríkið hefur lítið að segja um skip sem sigla í gegnum efnahagslögsöguna, ólíkt því ef skipið hefði verið innan 12 sjómílna landhelginnar. Bjarni sagði óljóst hver væru lagaleg rök Bandaríkjamanna fyrir aðgerðinni í gær. Þá sé óljóst hvort henni fylgi afleiðingar fyrir Bandaríkin og hverjar þær gætu verið, sér í lagi þar sem Bandaríkin eiga ekki aðild að hafréttarsamkomulagi Sameinuðu þjóðanna. „Það sem gerist í svona, það eru einhver svona diplómatísk samskipti. Rússar eru greinilega ósáttir með þetta. Stundum er farið með svona fyrir alþjóðlega dómstóla. En þá flækir málin að Bandaríkin eru ekki aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Þar eru ýmis úrræði, að fara dómstólaleiðina, en hún er miklu flóknari. Svo er þetta bara, þetta er einhvers konar kalt stríð og þá er ekkert mikið verið að spá í einhverja dómstólaleið.“