Karlmaður var á þriðjudag dæmdur til að greiða konu tvær milljónir króna í miskabætur fyrir nauðgun. Dómurinn féll í einkamáli sem konan höfðaði gegn manninum. Það gerði hún eftir að Hæstiréttur ómerkti dóm Landsréttar um að maðurinn ætti að greiða henni bætur. Maðurinn nauðgaði konunni á skemmtistað í Reykjavík 2022. Hann var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur sneri niðurstöðunni við og sakfelldi manninn. Þar var maðurinn dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og til að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur. Maðurinn áfrýjaði til Hæstaréttar. Þar var sekt hans og fangelsisrefsing staðfest en dómurinn um bætur ómerktur þar sem Hæstiréttur sagði að ranglega hefði verið staðið að þeim hluta dómsins. Konan höfðaði því einkamál gegn manninum og krafðist miskabótanna sem henni höfðu verið dæmdar í Landsrétti. Maðurinn sagði að þar sem hann hefði verið sakfelldur í Hæstarétti sæi hann sér ekki annað fært en að viðurkenna bótaskyldu. Hann gerði ekki athugasemd við upphæðina en bað dóminn að ákveða tímabil vaxta og dráttarvaxta. Vextir reiknast frá því í mars 2022 og dráttarvextir frá maí 2023. Konan fékk gjafsókn úr ríkissjóði til að reka málið fyrir héraðsdómi.