„Við köllum þetta bara bílastæðagræðgi“

Gjaldskyldum bílastæðum hefur fjölgað mjög, tugir fyrirtækja og aðila rukka fyrir að leggja bíl og reglurnar eru óljósar. Atvinnuvegaráðuneytið stóð fyrir fundi í morgun þar sem boðaðar voru breytingar á neytendavernd vegna gjaldskyldu á bílastæðum. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði þar ástandið óboðlegt, koma ætti koma böndum á fyrirkomulagið og verið væri að skoða breytingar á innheimtu- og umferðarlögum. Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sagði á fundinum að gjaldskyldustæðum hefði fjölgað gríðarlega, og að mestu ónauðsynlega, á örfáum árum. Ekki siðlegir viðskiptahættir Hann sagði að gjaldtaka væri langt umfram kostnað, óskýr mörk væru á milli bílastæða sem væru í umsjá mismunandi fyrirtækja og innheimtuaðgerðir væru ósanngjarnar. „Við köllum þetta bara bílastæðagræðgi. Það er orðið sem nær yfir þetta best,“ sagði Runólfur. „Við þekkjum það nánast flest á eigin skinni, við erum að fá einhverja kröfu í heimabanka og höfðum í góðri trú greitt með einhverju appi, að við töldum, fyrir stæði. En þá höfðum við verið sett niður með GPS-punkti á annan stað og það kemur krafa með vangreiðslugjaldi sem getur verið 5.700 krónur. Og engin skýring með. Þetta eru auðvitað ekki siðlegir viðskiptahættir.“ Afhverju hefur þetta viðgengist? „Fólk hefur verið sofandi, þessir opinberu aðilar sem eiga að tryggja að neytandinn verði ekki fyrir svona búsifjum.“ Úr sex í 44 á fjórum árum Runólfur sagði að fyrir fjórum árum hefði verið gjaldskylda á bílastæðum sex ferðamannastaða, núna væru þeir 44 og heildartekjur á ári væru yfir tveir milljarðar. Dæmi væru um að fé úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða væri nýtt til að setja upp stæðin, en það er ekki ætlað stöðum sem taka gjald af fólki. „Ef það finnst einhversstaðar kuml í landareign eða eitthvað sem gæti tengst einhverjum gömlum göróttum aðilum, þá finna jafnvel sauðfjárræktarfélög hjá sér að setja upp bílastæði svo þau geti þénað á svæðinu.“ Er verið að kaupa land í því augnamiði að rukka þar fyrir bílastæði? „Já, ég held að það sé alveg augljóst.“ Má innheimta hvað sem er hvar sem er? „Það voru settar skorður á sínum tíma þegar landeigendur voru að fara af stað með svona gjaldtöku en þetta hefur farið, því miður, óheft fram,“ segir Runólfur. Neytendastofu berast fjölmörg erindi Á morgun birtir Neytendastofa leiðbeiningar fyrir gjaldskyld bílastæði. Þórunn Anna Árnadóttir forstjóri Neytendastofu segir marga leita þangað vegna bílastæðamála og bindur vonir við fyrirætlanir ráðherra. „Það á að styrkja bæði Neytendastofu og lagaumgjörðina,“ segir Þórunn Anna. Hún segir erindin sem Neytendastofu berist fjölmörg. „Það hafa örugglega komið tugir, jafnvel hundruð erinda til okkar vegna þessa.“ Í flestum þeirra vilji fólk fá að vita hvað það geti gert varðandi rukkanir sem það hafi fengið. „Líka að fólk hafi ekki fengið upplýsingar að þetta væri gjaldskylt stæði eða hvernig ætti að borga og hversu hátt gjaldið væri. Fólk hafi ekki áttað sig á að ef það myndi ekki borga myndi bætast við himinhár kostnaður.“ Neytendastofa hefur fimm sinnum gert fyrirtækjum sektir vegna þessara viðskiptahátta. Því til viðbótar eru allnokkur mál á borði stofnunarinnar sem gætu leitt til sekta.