Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð í grunnskólanum Hofgarði í Öræfum vegna illviðris sem geisar á sunnanverðu landinu. Þar eru vegfarendur sem lentu í vandræðum í færðinni. Gul viðvörun er í gildi þar vegna suðaustan hvassviðris og snjókomu. Um klukkan þrjú í dag höfðu fimmtán manns leitað skjóls í fjöldahjálparmiðstöðinni, að því er fram kemur í tilkynningu Rauða krossins. Hringvegurinn milli Jökulsárlóns og Skaftafells er lokaður vegna illviðris sem geisar á sunnanverðu landinu. Gul viðvörun er í gildi þar vegna suðaustan hvassviðris og snjókomu. Veginum var einnig lokað fyrr í dag á svipuðum slóðum vegna flutningabíls sem þveraði veginn eftir að hafa runnið til í hálkunni. „Það bæði er einhver hálka, það er snjór sem safnast í skafla og svo eru það hviðurnar sem gera fólki erfitt um vik að keyra, sérstaklega óvönum ökumönnum eða þeim sem eru ekki vanir íslenskum aðstæðum. Þegar þetta kemur allt saman þá skapast vandræði,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Hefur fólk lent í vandræðum þarna í dag? „Já, eftir því sem mér skilst er nokkuð um að ferðamenn stoppi einfaldlega vegna þess að þeir treysta sér ekki áfram eða þá að þeir keyri í skafla. Þó að það sé ekki mikill snjór þá hefur eitthvað safnast í skafla þannig að fólk er bara í vandræðum og björgunarsveitirnar eru á staðnum að aðstoða fólk.“ Viðvörunin er í gildi fram á kvöld og ekki er ljóst hvenær unnt verður að opna veginn. „Spáin og ástandið eru þannig að það þarf líka að hjálpa þessu fólki sem er í vandræðum koma sér af svæðinu áður en við getum svo unnið við að hreinsa almennilega þann snjó sem þó er.“