Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir húsbrot hjá nágrönnum sínum og ölvunarakstur. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Erfitt ástand árum saman Kona sem maðurinn ógnaði sagðist fyrir dómi hafa búið við stöðugt umsáturseinelti og ógnanir heima fyrir. Hún kvaðst fyrir dómi hafa lagt inn tíu kærur hjá lögreglu auk þeirra tveggja mála sem maðurinn var ákærður fyrir að þessu sinni. Hún sagði að borinn hefði verið eldur að hurðinni að íbúð sinni og fjölskyldu sinnar, gangarnir reykfylltir og að eiginkona ákærða hefði ráðist á hurðina með hamri eftir barnaafmæli. Að hennar sögn voru húsfundir haldnir með milligöngu lögfræðinga og útburðarmál höfðað á hendur ákærða og eiginkonu hans, þau hafi flutt út áður en það mál fór fyrir dóm. Ruddist inn á gang íbúðarinnar Maðurinn var sakfelldur fyrir að ryðjast inn á heimili nágranna sinna og fara ekki þaðan út fyrr en honum var ýtt út. Kona sem býr í íbúðinni sagði manninn hafa ógnað sér og hundunum hennar og ausið yfir hana svívirðingum. Hann hafi síðan ruðst inn um dyrnar og elt hana inn á gang íbúðarinnar. Maður hennar kom manninum að lokum út. Bæði báru þau vitni um framferði mannsins og þótti sannað að hann hefði brotið af sér. Framburður fólksins þótti trúverðugur en öðru gegndi um framburð ákærða sem neitaði sök. Sýknaður af öðrum ákærulið þrátt fyrir líkar raddir Maðurinn var sýknaður af öðrum lið ákærunnar. Þar var hann sakaður um að hafa hótað konunni með ofbeldi og hrópað að henni að hann myndi taka af henni hausinn ef hún léti stól ekki vera. Konan sagði hann hafa byrjað að sparka í útidyrahurð sína og haldið því áfram í 40 mínútur. Konan tók myndband þar sem sást móta fyrir karlmanni sem dómari segir að gæti verið ákærði. Þar heyrist líka rödd sem líkist rödd ákærða. Maðurinn kannaðist ekki við að þetta væri hann á myndbandinu. Ekki þótti sannað að maðurinn hefði verið þarna á ferð og var hann því sýknaður af þessum ákærulið. Maðurinn var einnig ákærður fyrir ölvunarakstur og játaði sök. Hann var sviptur ökuréttindum í fimm ár.