Afleysingastofa ekki hugsuð til að leysa mönnunarvanda heldur fyrir tímabundnar afleysingar

Afleysingastofa Reykjavíkurborgar var stofnuð sem tilraunaverkefni 2018 og hefur verið starfrækt síðan. Í fréttum í gær var fjallað um aðstæður foreldra barna á leikskólanum Funaborg í Grafarvogi sem þurfa að vera heima einn og hálfan dag á viku vegna fáliðunaráætlunar. Þá sagði Heiða Björg Hilmisdóttir til skoðunar hvort afleysingastofa gæti leyst vanda skólans. Lóa Birna Birgisdóttir, sviðstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar, segir ekki hugsunina með Afleysingastofu að hún leysi vanda einstakra starfsstöðva sem glími við manneklu. „Heldur fyrst og fremst að geta brugðist við þörf fyrir tímabundna afleysingu vegna veikinda eða annarra ástæðna.“ Hjá Afleysingastofu starfa nú 8 manns, öll í leikskólum, auk þess sem 18 eru á skrá án þess að vera í ráðningasambandi. Lóa Birna segir ráðningakjör og -kröfur eins og þegar ráðið er í störf beint á starfstöðvum borgarinnar en að hjá Afleysingastofu sé ráðið í tímavinnu. „Það er ráðið í afleysingar í tiltekinni starfsemi, þá ertu ráðinn inn bara í afleysingar á leikskóla eða, til dæmis, við höfum verið afleysingar í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk, jafnvel í neyðarskýlunum hjá okkur eða í þjónustuveri.“ Lóa Birna segir hugmyndina upphaflega hafa verið þá að hjá Afleysingastofu væri fólk á lista og gæti flakkað á milli ólíkra starfsstöðva, til dæmis leikskóla, eftir þörfum. Reynslan hafi þó orðið að það sé ekki algengt fyrirkomulag heldur ílengist starfsfólk frekar á starfsstöð. „Þú kemur inn, ert í afleysingu á einhverjum tilteknum einum leikskóla og síðan er kannski þörfin fyrir að fá mannafla þar og þér líkar vel og þá ertu ráðin í starf þar og ferð frá Afleysingastofu, þannig hefur þetta verið að þróast.“