Orð ársins 2025 að mati hlustenda RÚV og notenda RÚV.is er gjaldskylda . Valið var kynnt á Menningarhátíð Ríkisútvarpsins í dag. Tvö orð fengu flest atkvæði í kosningunni, það voru græna gímaldið og gjaldskylda, sem vann naumlega. Gjaldskylda var áberandi á árinu, ekki bara vegna ferðamannastaða þar sem gjaldskylda var tekin upp eða á bílastæðum, til dæmis við Háskóla Íslands. Gjaldskylda vakti nefnilega aðallega athygli eftir að ferðamenn fóru að merkja myndir teknar á þekktum ferðamannastöðum með staðsetningunni gjaldskylda og gerðu ráð fyrir að staðirnir hétu það. Græna gímaldið fékk örlítið færri stig í kosningunni en vakti engu að síður mikla athygli á árinu. Stór kassalaga, græn bygging sem reis við Álfabakka, að því er virtist á augabragði, vakti mikla óánægju, ekki síst meðal íbúa í Árskógum. Reykjavíkurborg réðst í stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu og ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar. Önnur orð sem fengu tilefningu sem orð ársins voru: Bikblæðing, málþóf, símabann, tollastríð, Valkyrjustjórnin, veiðigjald, viðlagakassi og þjóðernishreinsanir.