Biðstofan: Krafa á undanúrslit?

Það styttist óðfluga í Evrópumót karla í handbolta. Í aðdraganda móts fór teymi Stofunnar yfir allt sem hægt er að fara yfir í Biðstofunni. Helga Margrét Höskuldsdóttir stýrir umræðunni þar sem þeir Logi Geirsson, Kári Kristján Kristjánsson og Ólafur Stefánsson láta gamminn geisa. Í fyrsta þætti ræða strákarnir vegferð Snorra Steins Guðjónssonar með landsliðið. Hvað telja þeir ásættanlegan árangur? Hver eru stærstu spurningarmerkin með liðið í ár? Þarf Snorri að bjóða upp á hraðara spil? Hvað er þetta með Loga og þýsku hlaðvörpin? Gettu Betur, ummæli Gísla Þorgeirs um að hafa verið „outcoachaðir“ og draumar íslenska liðsins eru meðal þess sem kemur fyrir. Hér má sjá brot úr Biðstofunni þar sem þeir ræða væntingar og kröfur til Snorra. Þáttinn má nálgast í heild sinni hér neðar. Stofuteymið fór yfir alla mögulega vinkla fyrir Evrópumót karla í handbolta. Í Biðstofunni ræðir teymið landsliðið frá A til Ö í þremur þáttum. Hvenær koma þættirnir út? Þrír þættir koma út í aðdraganda móts og má sjá þá í spilara RÚV og hlusta á þá í öllum helstu hlaðvarpsveitum á Íþróttavarpi RÚV. Fyrsti þátturinn kom út klukkan 17:00 í dag, fimmtudag. Næsti þáttur kemur út klukkan 17:00 á föstudag og sá síðasti klukkan 06:00 á mánudagsmorgun. Dagskrá landsliðsins Ísland leikur æfingaleik gegn Slóveníu klukkan 17:30 í æfingaleik föstudaginn 9. janúar. Ísland leikur svo annan æfingaleik gegn annaðhvort Frökkum eða Austurríki á sunnudaginn. Leikir Íslands á EM 2026 Föstudagur 16. janúar - kl. 17:00 Ísland - Ítalía Sunnudagur 18. janúar - kl. 17:00 Ísland - Pólland Þriðjudagur 20. janúar - kl. 19:30 Ísland - Ungverjaland