Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið mun líta dagsins ljós á vorþingi segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Hún segir að þróun heimsmála kalla á slíka atkvæðagreiðslu. „Og ég held að þróun heimsmála dragi það fram að við eigum að leita að hvað er best til þess fallið að treysta varnir okkar og öryggi og ekki síður að byggja upp það sem við Íslendingar stöndum fyrir. Það er fyrir friði í heiminum, fyrir lýðræði, mannréttindum og að grundvallarprinsipp alþjóðalaga séu virt,” sagði Þorgerður Katrín í samtali við fréttastofu eftir fyrsta ríkisstjórnarfund ársins. Líklegt að stefnt sé að atkvæðagreiðslu vor 2027 Þegar þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu er samþykkt er níu mánaða gluggi þar sem atkvæðagreiðslan þarf að fara fram. Í kosningalögum sem tóku gildi 1. janúar 2022 segir um þjóðaratkvæðagreiðslur: Þjóðaratkvæðagreiðsla skv. 1. mgr. 1. gr. skal fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi. Þorgerður Katrín sagði í samtali við fréttastofu í vikunni of snemmt að tala um nákvæmar dagsetningar en að tillagan verði lögð fram á vorþingi. Gangi það eftir má leiða líkur að því að hún yrði samþykkt fyrir þinglok að vori, til dæmis í júní. Þannig er líklegt að ríkisstjórnin stefni að atkvæðagreiðslu vorið 2027. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að kjósa eigi um áframhaldandi aðildarviðræður eigi síðar en árið 2027. Inga Sæland vill ekki ganga í ESB en vill að þjóðin eigi síðasta orðið Þegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var kynntur í desember 2024 sagðist Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, persónulega ekki vilja ganga í Evrópusambandið en að hún sé fylgjandi því að þjóðin eigi um það síðasta orðið. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði við sama tækifæri tíma að formenn stjórnarflokkana hafi allar mismunandi nálgun á málið en séu sammála um að atkvæðagreiðsla sé rétta leiðin. „Það eru allir sem sitja við þetta borð stuðningsaðilar þess að þjóðin fái að skera úr um það hvort að við höldum þessu áfram eða ekki. Það er ekki þar með sagt að ríkisstjórnin muni sjálf agitera fyrir já eða nei í heild sinni, það er auðvitað bara frjálst spil í því,“ Kristrún sagði ríkisstjórnina vera samstíga og að allir flokkar muni samþykkja þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti Íslendinga hlynntur aðild Alls hafa átta þjóðaratkvæðagreiðslur farið fram á Íslandi, þar af aðeins þrjár eftir stofnun lýðveldisins. Árið 2012 var síðast haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi, hún sneri að tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Í nýrri könnun Prósents kemur fram að 45% varenda séu hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu en 35% andvíg. Í könnun Gallup frá árinu 2025 má sjá svipaðar niðurstöður en þar kemur fram að 44% þjóðarinnar sé hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu en 36% andvígir. Í sömu könnun frá árinu 2022 voru 47% Íslendinga hlynntir inngöngu og 33% andvígir.