E.coli-hópsmitið á Mánagarði á ákærusviði – Þrír með réttarstöðu sakbornings

Þrír eru með réttarstöðu sakbornings vegna E. coli-hópsmits sem kom upp á leikskólanum Mánagarði í október 2024. Málið er komið á ákærusvið lögreglu segir E. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hún vill ekki tjá sig um hverjir það séu og segir að taka verði tillit til aðstæðna þar sem málið sé flókið. Foreldrar stúlku sem lá þungt haldin á spítala fóru fram á að málið yrði rannsakað. Í kröfu sem lögfræðingur þeirra lagði fram hjá lögreglu fyrir hönd foreldranna kemur fram að ekki fáist betur séð en að gáleysi starfsmanna hafi verið svo stórkostlegt að það jaðri við ásetning. Kröfunni var beint að Félagsstofnun stúdenta, sem rekur leikskólann, en ekki starfsfólki. E.coli-hópsmitið á Mánagarði er rakið til rangrar meðferðar á matvælum. Hátt í 50 börn veiktust eftir að hafa borðað e.coli-mengaðan matinn. Fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum Kveik í janúar í fyrra. E.coli-hópsýking sem kom upp í leikskólanum Mánagarði árið 2024 er á borði ákærusviðs lögreglu. Þrír eru með stöðu sakbornings að sögn lögreglu. Líf barna héngu á bláþræði vegna sýkingarinnar á sínum tíma. Maturinn var ekki fulleldaður og látinn standa í nokkra klukkutíma á borði daginn áður en hann var borinn á borð fyrir börnin. Þá hafði matráður leikskólans ekki fengið formlega þjálfun í matvælaöryggi. Hakkið sem var eldað var að auki ranglega merkt.