Björgunarsveitir flytja ferðamenn í tugum bíla í Öræfum í fjöldahjálparstöð

Björgunarsveitir á Suðausturlandi vinna nú að því að flytja fólk í tugum bíla sem fastir eru í Öræfum í fjöldahjálparstöð í Hofgarði í Öræfum, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Illviðri gengur yfir Suðurland og gular viðvaranir eru í gildi til klukkan tíu í kvöld. Björgunarsveitir hafa aðstoðað ferðafólk í Öræfum frá því í hádeginu. Samkvæmt tilkynningu Landsbjörg voru fyrstu sveitirnar kallaðar út klukkan hálf eitt. Björgunarsveitin Kári í Öræfum var þá kölluð út en fljótlega kom í ljós að talsverður fjöldi ferðamanna var í vandræðum á milli Freysness í Skaftafelli og Fagurhólsmýrar. Björgunarfélag Hornafjarðar fór á staðinn á tveimur stórum bílum og fyrir voru félagar í Kára á dreka, brynvörðum bíl sem þolir mikinn vind. Jón Þór segir veður afleitt og aðstæður erfiðar, vindhviður fóru upp í 40 metra á sekúndu. Fólk hafi átt erfitt með að fóta sig þegar það fór úr úr bílum og inn í þá aftur. Neyðarlínan sendi út skilaboð í síma á svæðinu þar sem fólk var beðið um að bíða í bílum sínum þar til hjálp bærist. „Björgunarsveitin Kyndill frá Kirkjubæjarklaustri var að bætast við, þær vinna sig bíl úr bíl og flytja fólk í björgunarsveitarbíla og flytja það síðan í fjöldahjálparstöðina.“ Liðsauki er sömuleiðis lagður af stað frá Höfn í Hornafirði. Jón Þór segir ljóst að hátt í hundrað manns verði flutt í fjöldahjálparstöðina. Vinna sé hafin við að kanna með gistingu fyrir hópinn á hótelum og gistihúsum í nágrenninu.