Hótar klerkastjórninni öllu illu vegna morða á mótmælendum

Trump Bandaríkjaforseti hótar stjórnvöldum í Íran að grípa til harða aðgerða ef þau drepa mótmælendur. „Ég hef látið þá vita að ef þeir byrja að drepa fólk, sem þeir gera gjarnan í mótmælum, og það er nóg af þeim þarna, ef þeir gera það, þá bregðumst við harkalega við,“ sagði Trump í viðtali við útvarpsmanninn Hugh Hewitt í dag. Hann hafði áður nefnt að Bandaríkin myndi blanda sér í málin ef öryggissveitir stjórnvalda í Íran myndu drepa mótmælendur. Lokað hefur verið fyrir aðgang að netinu í alls staðar í Íran, að því er eftirlitshópurinn NetBlocks tilkynnti undir kvöld. Áður hafa verið truflanir á netsambandi í landinu þegar mótmæli standa yfir. Al Jazeera greinir frá. Ekkert lát er á mótmælum í landinu gegn versnandi efnahagsástandi. Gjaldmiðill landsins hefur hríðfallið og lögregla hefur drepið mótmælendur og handtekið yfir 2.000 manns. Bandaríkjaforseti hótar harkalegum viðbrögðum ef stjórnvöld í Íran drepa mótmælendur. Mótmælaalda hefur gengið yfir landið síðan 28. desember og segja mannréttindasamtök að 45 manns hafi beðið bana. Fjölmenn mótmæli hafa verið í Íran síðustu tólf daga. Þau byrjuðu í höfuðborginni Teheran og hafa breiðst út um landið. Mannréttindasamtök segja að 45 hafi beðið bana í mótmælunum, þar af nokkrir úr öryggissveitum stjórnvalda. Mótmælin eru talin ein mesta áskorun klerkastjórnarinnar síðan hún tók völdin 1979. Gengi gjaldmiðils Írans, ríalsins, hefur hríðfallið gagnvart Bandaríkjadollar og verðbólga hefur mælst 40 prósent. Þar til nýlega fengu innflutningsfyrirtæki niðurgreiðslur frá stjórnvöldum til að kaupa dollara og evrur á lægra gengi en aðrir til að geta greitt fyrir nauðsynjavörur frá útlöndum. Það fyrirkomulag var afnumið og borið hefur á skorti á innfluttum matvælum og verð hefur hækkað. Í stað niðurgreiðslu á gjaldeyriskaupum innflutningsfyrirtækja ætla yfirvöld að greiða hverju heimili upphæð sem jafngildir tæpum 900 íslenskum krónum á mánuði.