Bandaríkin gætu þurft að velja milli þess að yfirtaka Grænland og halda áfram veru í Atlantshafsbandalaginu, sagði Donald Trump forseti í viðtali við New York Times , sem birt var í gær. Hann staðhæfði að bandalagið verði algerlega gagnslaust án Bandaríkjanna. Trump svaraði ekki beint spurningu um hvort honum þætti mikilvægara að ná Grænlandi eða halda áfram samvinnu við ríki NATÓ. „Það er hreinlega spurning um val,“ sagði Trump. Hann áréttaði að Bandaríkin þyrftu að eiga gjörvallt landið fremur en að nýta sér ákvæði samnings við Danmörku sem veitir umfangsmiklar heimildir til að setja upp herstöðvar þar. „Eignarhald færir þér eitt og annað sem undirritun skjala gerir ekki,“ sagði Trump. Grænlendingar hafa sagst engan áhuga hafa á að verða hluti Bandaríkjanna. Pipaluk Lynge, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar grænlenska þingsins, telur réttindi tapast verði það örlög landsins. Hún er þó hvergi sátt við framgöngu Dana. Fulltrúar Danmerkur og Grænlands hittu ráðgjafa Bandaríkjastjórnar í gær og til stendur að utanríkisráðherrar landanna þriggja fundi í næstu viku.