Skemmtikrafturinn Eva Ruza lærði það ung að lífið er ekki sjálfgefið og tók því ákvörðun um að njóta þess á meðan hún hefur tækifæri til. Þegar hún var níu ára missti hún besta vin sinn og á næstu árum missti hún báðar ömmur sínar og báða afa með skömmu millibili. Það hafi mótað hana mikið. Hún sé mjög jákvæð að eðlisfari og missti því aldrei trúna á þeim þremur árum sem hún reyndi að eignast börn og missti fóstur tvisvar. Á endanum eignaðist hún tvíbura sem verða 17 á árinu. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Evu í Segðu mér á Rás 1. „Manneskjunni á að líða vel með grínið sem verið er að kasta á hana“ Eva segist hafa mikinn húmor fyrir sjálfri sér sem sé mjög mikilvægt í starfi hennar sem skemmtikraftur en einnig í lífinu sjálfu. Fólk geti ekki fundið höggstað á henni því hún hlæi bara með. „Ég er ekki viðkvæm fyrir sjálfri mér.“ Þennan eiginleika hafi hún fengið í vöggugjöf sem hefur fylgt henni allar götur síðan. Þó svo að Eva tali mikið og hratt þá hugsi hún alltaf allt áður en hún talar. „Ég er skvetta og ég skvettast áfram með allt sem ég geri í lífinu en ég veit samt alveg hvað ég er að gera og hvað ég er að segja. Ég er alltaf komin aðeins á undan í huganum.“ Það sé heldur ekki henni líkt að koma með neðanbeltisbrandara eða vera með grín sem særi. „Það er ekki í mér.“ Henni þykir munur á að gera góðlátlegt grín að fólki og andstyggilegt. „Maður verður að passa allt grín sem maður fer í. Manneskjunni á að líða vel með grínið sem er verið að kasta á hana.“ Þroskandi að missa svona mikið á stuttum tíma Eiginmanni sínum, Sigurði Þór Þórssyni, kynntist Eva þegar hún var 17 ára á skemmtistaðnum Broadway. Þau féllu fyrir hvort öðru um leið og hafa verið saman síðan. Hann minni hana reglulega á að það vakni ekki allir í jafn góðu skapi og hún. „Ég veit ekki hvað þetta er hjá mér. Þegar ég var ung missti ég ömmur mínar og afa öll þegar ég var 11–13 ára, bæði á Íslandi og í Króatíu. Ég var níu ára þegar besti vinur minn dó, hann drukknaði í skólasundi.“ Hún hafi því átt nokkur mjög erfið ár í æsku. „Ég held að þetta sé bara eitthvað sem ég hef tamið mér því þú veist ekki hversu langan tíma þú færð hérna,“ útskýrir Eva. „Það er rosalega þroskandi að fara í gegnum svona, að missa svona mikið á svona stuttum tíma. Ef ég segi það alveg einlægt þá held ég að þetta sé ástæðan fyrir því að ég er eins og ég er.“ „Þetta mótaði mig rosalega mikið að manneskjunni sem ég er í dag. Ég tek aldrei neinu sem sjálfsögðu.“ Hún hafi því ákveðið að njóta lífsins og hafa það skemmtilegt. Hún eigi vissulega erfiða daga en þegar henni líði illa þá sé hún fljót að hrista það af sér því henni þykir vont að vera á þeim stað. Hún segir að fólk megi alveg kalla sig einfalda fyrir að líta lífið björtum augum. „Mér er alveg sama. Ég er flugklár, mér gengur ótrúlega vel með það sem ég er að gera og ég veit hvað ég er að gera. Ef einhver vill kalla mig einfalda fyrir að sjá lífið svona þá er það bara í lagi.“ „Þetta á ekki að vera eitthvað sem maður talar ekki um“ Eva og Sigurður eiga saman tvö börn, tvíbura sem verða 17 ára í sumar. „Við þurftum að fara í tæknisæðingu til að geta eignast þau. Við vorum búin að reyna í þrjú ár að eignast börn og missa tvisvar.“ Hún minnist fyrsta missisins sem hræðilegs tíma. „Mér leið eins og ég væri ein í heiminum, eins og enginn væri að tala um þetta. Eins og ég væri eina konan í 14 vinkvenna hópi sem hefði misst.“ Þar sem Eva er opinská og þykir gott að tala um hlutina þá hafi hún ákveðið að opna sig um reynsluna, líka svo að aðrar konur finni að þær séu ekki einar. Eftir að hún ræddi fósturmissinn opinberlega í viðtali í fyrsta sinn fékk hún fjölda skilaboða frá konum sem þökkuðu henni fyrir að segja frá, þær hefðu líka upplifað sig einar með reynsluna. „Þetta á ekki að vera eitthvað sem maður talar ekki um.“ Þau hjónin hafi farið í gegnum tæknifrjóvgun sem heppnaðist í þriðja skiptið. Þá komu þau samferða. Ég hugsa alltaf að þessi tvö sem ég missti vildu bara koma saman.“ Þráði ekkert heitar en að verða mamma Hún segist hafa verið mjög þakklát eiginmanni sínum í gegnum allt ferlið. „Auðvitað var hann að missa líka en það var svo mikill skilningur á því að það væri svo mikið að gerast í mínum líkama en ekki hans.“ Þau hafi ekki látið áföllin á sig fá, voru fljót að finna bjartsýnina og héldu áfram að reyna. „Ég missti aldrei trúna á að þetta myndi ganga.“ Á þessum tíma hafi flestar af hennar vinkonum verið að eignast börn og þó svo að hún hafi glaðst innilega með þeim þá hafi hún alltaf fengið sting í hjartað og velt fyrir sér hvers vegna þetta væri ekki að gerast hjá henni. „Þetta var það eina sem ég þráði í lífinu, að verða mamma. En ég náði samt alltaf að samgleðjast.“ Þau Sigurður héldu í vonina og hún var 26 ára þegar þau eignuðust tvíburana. Allt það veraldlega er ekki sjálfgefið Eva er velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpa, titill sem henni þykir mjög vænt um. Hún hefur verið styrktarforeldri frá því að börnin hennar voru ung. Faðir hennar ólst upp við mikla fátækt í Króatíu og kom hingað til lands 19 ára í leit að betra lífi. „Það hefur kennt mér að allt þetta sem við eigum í dag, þetta veraldlega, er ekki sjálfgefið.“ Líður aldrei eins og hún sé að vinna Hún segist hugsa með sér á hverju ári að nú hljóti síminn að fara að hætta að hringja og að fólk sé búið að fá nóg af sér. „Ég held að það sé mjög gott að vera með þá hugsun því það lætur mig leggja enn þá harðar að mér.“ Hún segist ekki aðeins gera hlutina af 100% hug heldur 150%. Hún sé mjög þakklát fyrir rað fá að starfa sem skemmtikraftur. „Á meðan ég hef gaman af þessu þá vona ég að fólk hafi gaman af mér. Þetta er bara ástríðan mín og mér líður aldrei eins og ég sé að vinna.“ Eva Ruza lærði það ung að fólk hefur ekki endalausan tíma hér á jörðu. Hún ákvað að hafa gaman af lífinu og hefur tamið sér það að taka engu sem sjálfgefnu. Rætt var við Evu Ruzu í Segðu mér á Rás 1. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.