Bandarísk stjórnvöld segja það hugararóra Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Írans, að þau ásamt Ísraelsstjórn kyntu undir ofbeldi í fjölmennum mótmælum í landinu. Talsmaður utanríkisráðuneytisins bandaríska segir ásakanirnar til þess eins að beina sjónum frá þeim vanda sem blasir við klerkastjórninni. Æðstiklerkurinn Ali Khamenei sagði í gær hendur Donalds Trump Bandaríkjaforseta vera ataðar blóði þúsunda saklausra Írana, og vísaði þar líklega til loftárása Bandaríkjahers á kjarnorkuinnviði landsins í júní. Hann kallaði mótmælendur hermdarverkamenn og spellvirkja. Khameinei sagði jafnframt að Trump yrði steypt af stóli líkt og Múhameð Resa Pahlavi, keisara Írans í klerkabyltingunni 1979. Trump brást við og sagði íranskan almenning vera að sölsa undir sig fjölda borga sem enginn hefði fyrir örskömmu trúað að gæti gerst. Hann áréttaði að hann gæti fyrirskipað hernum að gera loftárásir á Íran, þegar hann vildi. Reza Pahlavi, sonur keisarans sem býr í Bandaríkjunum, hefur beðið Trump að liðsinna andófsfólkinu og sagt mótmælunum hvergi nærri lokið. Írönsk dómsmálayfirvöld hafa hótað hámarksrefsingu fyrir þátttöku í mótmælunum, engin grið verði gefin. Íranski friðarverðlaunahafinn Shirin Ebadi, sem býr í útlegð, kveðst óttast að öryggissveitir muni fremja fjöldamorð í skugga Internetbanns klerkastjórnarinnar.