Netflix neitaði þáttunum þegar kötturinn var drepinn

Danska konan eru nýir þættir sem eru í sýningu á RÚV. Þeir fjalla um dönsku konuna Ditte Jensen sem uppgötvar að nýju nágrannarnir eru ekki fullkomnir og hana langar að hjálpa þeim en gengur afar langt í viðleitni sinni til að bjarga samferðarfólkinu og úr verða grátbroslegar senur. Þættirnir eru skemmtilegir og óhefðbundnir og það er eðlilegt að áhorfendur velti fyrir sér hvað sé á bak við þennan magnaða karakter í túlkun Trine Dyrholm. Ólafur Egill Egilsson er annar handritshöfunda Dönsku konunnar, hann var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Tveir þættir hafa nú verið sýndir í línulegri útsendingu og eru þeir á dagskrá á sunnudögum. Viðbrögðin hafa verið afar góð og Ólafur er jafnvel stoppaður á förnum vegi. „Kona kom upp að mér í Glæsibæ og spurði, hvað eru þessir menn í bílnum að gera? Hún vildi bara fá svörin,“ segir hann. Danska konan, í samnefndum þáttum, fer sannarlega eigin leiðir. Snemma í fyrsta þætti drepur hún kött nágrannans þegar hann skítur í beðið hennar. Handritshöfundurinn, Ólafur Egill Egilsson, er dýravinur en segir þetta hafa verið nauðsynlegt sögunni. Hann segir dönsku konuna í þáttunum sjá sig sem nokkurs konar uppalanda og bjargvætt. Benedikt Erlingsson er hinn handritshöfundurinn, hugmyndasmiður þáttanna og leikstjóri. Líkt og í kvikmyndinni Kona fer í stríð fékk hann Ólaf með sér í skrifin sem hafa tekið nokkurn tíma. „Það tók tíma að koma saman peningum og sannfæra fólk um að þetta ætti að gerast. Við höfðum tíma til að dútla í allegóríum og pælingum.“ Danska konan í þættinum var áður starfsmaður leyniþjónustunnar í Danmörku, í þjónustu dönsku krúnunnar. „Svo er hún komin til Íslands til að slaka á og rækta garðinn sinn.“ Hún býst við því að búa við frið á Íslandi en áttar sig á því að ekki er allt með felldu í húsfélaginu og hjá nágrönnunum. Hún gengur fram eins og heimsveldi og tilgangurinn réttlætir meðalið alltaf. Henni finnst að börn eigi að fá frí frá skjá og þá segir hún við nágrannann svona á það að vera. Nágranninn segir nei og þá mætir hún bara í skjóli nætur. Það er farið alla leið. Sjálfir hafa þeir líkt dönsku konunni við bæði Línu Langsokk og Rambó. „Hún er með sinn eigin siðferðislega áttavita.“ Snemma í fyrsta þætti fremur hún verknað sem eflaust hefur farið fyrir brjóstið á einhverjum áhorfendum þegar hún drepur kött nágrannans. Ólafur tekur fram að aðstandendur þáttanna kunni afar vel við ketti og að þeir séu dýravinir en að verknaðurinn hafi verið sögunni mikilvægur. Streymisveitan Netflix missti hins vegar trú á verkefninu vegna þessa. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að það tók tíma að koma verkefninu saman, til dæmis sagði Netflix bara nei. Ef kötturinn er drepinn? Nei. Ástæða þess að þeir stóðu við þann hluta sögunnar er að þeir vildu að áhorfendur áttuðu sig strax á því að persónunni væri ekki treystandi. Já, þetta er aðalpersóna og hún er hér í forgrunni og stendur þér næst sem áhorfendi en ekki treysta henni. Taktu upp þinn eigin siðferðislega áttavita. Pældu í honum út frá því sem hún gerir og því sem hinir segja og hvernig það fer. Danska konan er á dagskrá á sunnudag klukkan 21:25. Hægt er að horfa á fyrstu tvo þættina hér í spilara RÚV. Danska konan, í samnefndum þáttum, fer sannarlega eigin leiðir. Snemma í fyrsta þætti drepur hún kött nágrannans þegar hann skítur í beðið hennar. Handritshöfundurinn, Ólafur Egill Egilsson, er dýravinur en segir þetta hafa verið nauðsynlegt sögunni.