Fjölmenn mótmæli gegn klerkastjórninni í Íran hafa staðið óslitið frá því fyrir áramót. Þau byrjuðu í höfuðborginni Teheran og kveikjan var áhyggjur almennings af falli gjaldmiðilsins, mikilli dýrtíð og hækkandi framfærslukostnaði en hafa í ríkara mæli beinst gegn stjórnvöldum. Mótmælendur hafa kallað dauða yfir æðsta klerkinn Ali Khamenei og fleiri ráðamenn. Tugir hafa fallið fyrir hendi öryggissveita stjórnarinnar, þúsundir hafa verið handteknar og dómskerfið hótar hámarksrefsingu fyrir andófið. Þetta eru umfangsmestu mótmæli í landinu frá haustinu 2022 og eru álitin ein stærsta áskorun klerkastjórnarinnar síðan hún rændi völdum 1979. Mótmælin 2022 brutust út eftir að siðgæðislögregla landsins drap Masha Amini, unga konu af kúrdískum ættum, þar sem hún þótti hafa brotið gegn reglum um klæðaburð kvenna. Þetta eru þó alls ekki fyrstu mótmælin í sögu Írans. Árið 1978 hófst alda mótmæla að undirlagi andstæðinga keisarans Múhameðs Resa Pahlavi sem stjórnað hafði landinu frá 1941. Hann varð nánast einráður eftir að hann árið 1953 steypti umbótasinnuðum forsætisráðherranum Múhameð Mossadek af stóli með fulltingi leyniþjónustna Bretlands og Bandaríkjanna. Íhaldssamir síjaklerkar leiddu uppreisnina 1978 að stórum hluta, hliðhollir hinum útlæga Ruhollah Khomeini. Khomeini sagði keisarann strengjabrúðu Bandaríkjanna, spillta undirægju Vesturlanda, sem græfi undan gildum íslams. Olíuauður Íran réði mestu um áhuga vestrænna ríkja á landinu. Margvíslegar tilraunir Pahlavis, og ekki síður Fara Diba, konu hans, til að sefa mótmælendur skiluðu litlu sem engu. Hann setti loks á herlög í september 1978, bannaði fjöldasamkomur og kom á útgöngubanni. Uppreisnarmenn hliðhollir Khomeini færðust enn frekar í aukana og tóku að sölsa undir sig víðfeðm svæði í Íran. Um miðjan janúar 1979 yfirgaf Resa Pahlavi Íran, fárveikur af krabbameini, og hélt í útlegð til Egyptalands. Hann lést þar ári síðar, eftir að hafa leitað sér lækninga í Bandaríkjunum. Íslamska byltingin í Íran varð loks fullkomnuð þegar Ruhollah Khomeini sneri heim og setti ásamt fylgismönnum sínum á laggirnar íslamska lýðveldið Íran. Það var staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 1979 og Khomeini varð æðstráðandi í Íran samkvæmt ákvæðum nýrrar íslamskrar stjórnarskrár. Um haustið tóku stúdentar starfsfólk og fjölskyldur bandaríska sendiráðsins í gíslingu og héldu þeim í 444 daga. Ein ástæðan var sögð vera að koma í veg fyrir gagnbyltingu með stuðningi Bandaríkjanna. Háværasta krafan var framsal Pahlavis frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði leitað sér lækninga. Ekkert varð úr því auk þess sem hernaðaraðgerð að undirlagi Jimmys Carter forseta fór gersamlega út um þúfur. Átta Bandaríkjamenn fórust í þyrluslysi og einn Írani lést í aðgerðunum. Gíslunum var ekki sleppt fyrr en eftir að Ronald Reagan var kjörinn Bandaríkjaforseti. Gíslatakan festi Khomeini enn frekar í sessi sem æðsti leiðtogi Írans. Skömmu síðar hófst langvinnt stríð Írans og Íraks, þar sem Bandaríkjamenn studdu þá síðarnefndu af alefli. Klerkastjórnin hefur ætíð litið á Ísrael og Bandaríkin sem erkióvini sína og styður Hamas-hreyfinguna af ráðum og dáð, Hezbollah í Líbanon, Húta í Jemen og aðrar svipaðar. Æðsti klerkurinn Khomeini lést 1989 og þá tók Ali Khamenei við völdum eftir ákvörðun sérfræðingaráðs Írans. Hann var ötull bandamaður forvera síns í byltingunni og var forseti Írans frá 1981 til 1989. Khameinei ræður enn ríkjum í Íran þótt roskinn sé orðinn, hann er fæddur 19. apríl 1939. Andstaða við klerkastjórnina hefur færst í aukana á síðari árum, eins og fram hefur komið, en hún hefur iðulega barið af hörku niður allar tilraunir íbúa til að krefjast meira frelsis, til dæmis árið 2009 þegar fólki fannst forsetakosningunum hafa verið rænt og einnig í áðurnefndum mannskæðum mótmælum árið 2022. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað harkalegum aðgerðum gegn Íran haldi öryggissveitir uppteknum hætti við dráp á mótmælendum. Í yfirstandandi mótmælum hefur fólk hrópað hástöfum slagorð þar sem æðsta klerknum er óskað dauða. Dauðadómum og aftökum er beitt til að kæfa niður andóf af öllu tagi; talið er að minnst 1.500 hafi verið teknir af lífi í Íran árið 2025. Greinendur víða um heim velta því fyrir sér hver verði niðurstaða þeirra umfangsmiklu mótmæla sem nú standa yfir en sagan er ekki hliðholl þeim sem andæfa klerkastjórninni, sem náði völdum í byltingu fyrir rúmum 46 árum.