Landsmenn settu met í fjölda brottfara frá Keflavíkurflugvelli í fyrra. 709 þúsund brottfarir voru skráðar, sem er átján prósent aukning frá árinu 2024. Þá voru brottfarir um 601 þúsund. Brottfarir milli ára jukust því um 108 þúsund milli ára. Flestar brottfarir voru í apríl þegar um 81 þúsund Íslendingar ferðuðust utan. Þetta kemur fram á heimasíðu Ferðamálastofu. Síðasta ár er stærsta ferðaár landsmanna þegar kemur að utanlandsferðum, en árið 2018 hafði þar á undan haft vinninginn, með 668 þúsund brottförum. Fækkun brottfara erlendra ferðamanna Erlendir farþegar sem fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll í fyrra voru um tvær milljónir og 250 þúsund. Þetta eru um átta þúsund færri en árið 2024, samkvæmt talningu Isavia og Ferðamálastofu. Fækkunin nemur 0,4 prósentum milli ára. Sé litið til síðustu þriggja ára má sjá að fjöldi erlendra farþega hefur verið svipaður, í kringum 2,2 milljónir. Flestar brottfarir voru yfir sumarmánuðina. Langflestar þeirra voru í ágúst, eða alls 311 þúsund talsins, sem er um 30 þúsund fleiri samanborið við sama mánuð árið á undan. Næstflestar voru brottfarirnar í júlí, eða um 302 þúsund, sem er um 25 þúsund fleiri en í sama mánuði árið áður. Bandaríkjamenn fjölmennastir Ef litið er til þjóðerna voru Bandaríkjamenn fjölmennastir þeirra sem fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll í fyrra, líkt og svo oft áður, með um 654 þúsund brottfarir, eða um þriðjung af heildarfjölda brottfara. Þetta eru 33 þúsund fleiri brottfarir en árið á undan og tólf þúsund fleiri en árið 2024. Brottfarir Bandaríkjamanna höfðu áður mæst mest árið 2018, þegar þær voru 695 þúsund. Bretar eru næstfjölmennastir, með um 233 þúsund brottfarir í fyrra, eða rúmlega 10 prósent af heildarfjölda brottfara, og Þjóðverjar koma í þriðja sæti með 148 þúsund brottfarir. Kínverjar eru í því fjórða með um 124 þúsund brottfarir, en þær hafa ekki áður mæst svo margar. Brottfarir þessara fjögurra þjóðernishópa, Bandaríkjamanna, Breta, Þjóðverja og Kínverja, voru rúmlega helmingur allra brottfara í fyrra, eða 51,4 prósent.